Erlent

Erna Solberg hættir

Atli Ísleifsson skrifar
Erna Solberg var forsætisráðherra Noregs á árunum 2013 til 2021. Hún hefur leitt Hægriflokkinn frá árinu 2004.
Erna Solberg var forsætisráðherra Noregs á árunum 2013 til 2021. Hún hefur leitt Hægriflokkinn frá árinu 2004. EPA

Erna Solberg, formaður norska Hægriflokksins, hefur tilkynnt að hún muni segja af sér formennsku í flokknum. Tilkynningin kemur ekki á óvart en Hægriflokkurinn beið afhroð í nýafstöðnum þingkosningum í Noregi á mánudag.

Solberg greindi frá ákvörðun sinni skömmu eftir klukkan 14 í tenglum við neyðarfund flokksstjórnar sem kom saman í dag. Solberg sagði að það yrði ekki undir hennar forystu sem Hægriflokkurinn myndi búa sig undir næstu kosningar.

„Í dag hef ég því beðið miðstjórn Hægriflokksins að boða til landsfundar árið 2026 og þar mun Hægriflokkurinn velja sér nýja forystu,“ sagði Solberg.

Flokkurinn hlaut 14,6 prósenta fylgi í nýafstöðnum kosningum þar sem rauðgræna blokkin, undir forystu Jonas Gahr Störe forsætisráðherra og formanni Verkamannaflokksins, tryggði sér meirihluta þingsæta. Hægriflokkurinn hlaut rétt rúmlega 20 prósenta fylgi í kosningunum fyrir fjórum árum.

Hin 64 ára Solberg, sem var forsætisráðherra Noregs á árunum 2013 til 2021, tilkynnti jafnframt að hún myndi áfram leiða flokkinn fram að landsþingi.

Solberg tók við formennsku í Hægriflokknum árið 2004. Hún tók fyrst sæti á norska þinginu árið 1989.


Tengdar fréttir

Støre á vandasamt verk fyrir höndum eftir kosningasigur

Útlit er fyrir að Jonas Gahr Støre, formaður Verkmannaflokksins, muni leiða næstu ríkisstjórn Noregs eftir spennandi kosningar til norska stórþingsins. Framfaraflokkurinn, sem er yst til hægri, vann glæstan kosningasigur á meðan hægri flokkur Ernu Solberg galt afhroð.

Kosningaúrslit í Noregi: Störe fagnar sigri en Solberg mögulega á förum

Verkamannaflokkurinn í Noregi bar sigur úr býtum í þingkosningunum sem fram fóru í gær. Vinstri - miðju blokkin, með Jonas Gahr Störe forsætisráðherra og formanna Verkamannaflokksins í broddi fylkingar fékk fleiri atkvæði en blokk hægri flokka. Vinstri flokkarnir tryggðu sér samanlagt 87 þingsæti og flokkarnir til hægri 82, en til að ná meirihluta þarf 85 þingmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×