Handbolti

Ómar marka­hæstur og Gísli skoraði sigur­markið

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Gísli Þorgeir fagnar.
Gísli Þorgeir fagnar. Marius Becker/Getty Images

Ómar Ingi Magnússon var markahæstur og Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði sigurmarkið í 22-21 sigri Magdeburg gegn Barcelona á útivelli í Meistaradeildinni.

Lítið var skorað í leiknum en spennan varð þeim mun meiri milli þessara stórliða sem mættust síðast í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í vor.

Magdeburg sýndi frumkvæði og leiddi tveimur eða þremur mörkum mest allan leikinn, en Börsungar voru aldrei langt undan og jöfnuðu þegar minna en fimm mínútur voru eftir.

Gísli Þorgeir Kristjánsson tók sig þá til og kom Magdeburg aftur yfir, þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir. Meira var ekki skorað þrátt fyrir nokkrar tilraunir til viðbótar hjá báðum liðum og reyndist það sigurmarkið.

Gísli skoraði þrjú mörk úr sjö skotum en Ómar Ingi Magnússon var markahæstur hjá Magdeburg með sex mörk úr tíu skotum. Elvar Örn Jónsson tók eitt skot en skoraði ekki.

Ómar Ingi átti virkilega góðan leik.Javier Borrego/Getty Images

Viktor Gísli Hallgrímsson er markmaður Barcelona en hinn danski Emil Nielsen er ofar í goggunarröðinni. Viktor varði eitt af tveimur skotum sem hann fékk á sig í kvöld.

Magdeburg er með fullt hús stiga eftir tvo leiki í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×