Lífið

Rooney getur ekki farið til Bret­lands af ótta við að verða hand­tekin

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Sally Rooney skrifaði bækurnar Eins og fólk er flest og Millileikur.
Sally Rooney skrifaði bækurnar Eins og fólk er flest og Millileikur. Getty

Írski metsöluhöfundurinn Sally Rooney getur ekki ferðast til Bretlands vegna ótta við að hún yrði handtekin. Rooney hefur stutt fjárhagslega við bakið á samtökum sem styðja Palestínu en þau eru skilgreind sem hryðjuverkasamtök í Bretlandi.

Rooney vann til Sky Arts-verðlaunanna fyrir bókina Millileikur (Intermezzo) og var formleg verðlaunaafhending á breskri grundu í dag. Vegna ótta við að vera handtekin tók Alex Bowler, ritstjóri Rooney, við verðlaununum fyrir hennar hönd.

„Ég er svo hrærð og þakklát fyrir að hljóta þessi verðlaun,“ sagði Bowler sem las ræðu sem Rooney skrifaði vegna tilefnisins.

„Ég vildi að ég gæti verið hér með ykkur í kvöld til að þakka ykkur í eigin persónu en út af stuðningi mínum við friðsamleg mótmæli gegn stríði var mér ráðlagt að ég gæti ekki farið til Bretlands þar sem ég gæti mögulega verið handtekin.“

Í ágúst síðastliðnum tilkynnti Rooney að hún hygðist gefa allan hagnað af sölu bóka sinna til félagsins Palestine Action. Mánuði áður var umrætt félag skilgreint sem hryðjuverkasamtök af breskum yfirvöldum. Yfir sextán hundruð manns hafa verið handtekin í tengslum við félagasamtökin síðan í sumar. 

Samkvæmt umfjöllun The Guardian gæti Rooney verið handtekin á þeim forsendum að hún sé hryðjuverkamaður vegna þess að hún hafi stutt fjárhagslega við hryðjuverkastarfsemi. Vegna þessa hefur Rooney aflýst öllum viðburðum sem hún ætlaði að taka þátt í í Bretlandi.

„Á meðan Sameinuðu þjóðirnar segja að Ísrael sé að fremja þjóðarmorð gegn palestínsku þjóðinni, gæti starf Palestine Action ekki verið hugrakkara og mikilvægara. Það minnsta sem ég get gert er að gera það skýrt að ég styð þau og mun halda því áfram, sama hverjar afleiðingarnar eru,“ segir hún.

Intermezzo er fjórða bók Rooney en hún hefur einnig skrifað bækurnar Eins og fólk er flest (Normal People) og Okkar á milli (Conversations with friends). Bækurnar hennar hafa selst í milljónatali út um allan heim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.