Fótbolti

Dortmund biðst af­sökunar á að hafa gert grín að stamandi á­hrifa­valdi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jessie Yendle frá Wales er vinsæl á TikTok.
Jessie Yendle frá Wales er vinsæl á TikTok.

Þýska fótboltafélagið Borussia Dortmund hefur beðist afsökunar á að hafa gert grín að stami velskrar konu.

Í myndbandi á TikTok-aðgangi Dortmund birtist myndband þar sem heyra má áhrifavaldinn Jessie Yendle stama áður en vinsælt TikTok-danslag hefst. Undir því voru spiluð myndbrot af framherjanum Serhou Guirassy.

Ironman, sem skipuleggur þríþrautarkeppnina frægu, birti einnig svipað myndband af stami Yendle sem var brugðið þegar hún sá myndböndin.

Bæði Ironman og Dortmund hafa beðist afsökunar á myndböndunum og þýska félagið hefur boðist til að fljúga Yendle á leik í Meistaradeild Evrópu.

Dortmund hefur fjarlægt myndbandið af TikTok-aðgangi sínum. Alls var búið að horfa 765.000 sinnum á myndbandið en Dortmund er með 17,3 milljónir fylgjenda á TikTok.

Yendle er vinsæll áhrifavaldur en hún er með 3,5 milljón fylgjendur á TikTok. Hún hefur vakið á athygli á því hvernig er að stama og birtir reglulega myndbönd þar sem hún tekst á við hinar ýmsu áskoranir sem felast í því að stama. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×