Lífið

Búið spil hjá Burton og Bellucci

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Bellucci og Burton á kvikmyndahátíðinni í Róm árið 2023 þegar þau koma fyrst fram saman opinberlega.
Bellucci og Burton á kvikmyndahátíðinni í Róm árið 2023 þegar þau koma fyrst fram saman opinberlega. Getty

Bandaríski leikstjórinn Tim Burton og ítalska leikkonan Monica Bellucci eru hætt saman eftir tveggja ára samband. Stutt er síðan hún lék í kvikmynd hans, Beetlejuice Beetlejuice.

Hinn 67 ára Burton og hin 60 ára gamla Bellucci greindu frá fréttunum í sameiginlegri tilkynningu til AFP.

„Það er af mikilli virðingu og umhyggju í garð hvor annars sem Monica Bellucci og Tim Burton hafa ákveðið að skilja að skiptum,“ sagði í tilkynningunni.

Parið kynntist fyrst á rauða dreglinum á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2006 þar sem þau voru bæði í dómnefndnum hátíðarinnar. Bæði voru þá í langtímasamböndum með öðru fólki, hún var gift franska leikaranum Vincent Cassel en hann með ensku leikkonunni Helenu Bonham-Carter.

Burton og Bellucci kynntust svo aftur árið 2022 þegar hún veitt honum Lumière-verðlaun á Lumière-kvikmyndahátíðinni í Frakklandi. Skömmu eftir það sást til þeirra ganga hönd í hönd í Madríd en þau staðfestu sambandið ekki fyrr 2023 og sáust fyrst saman opinberlega á kvikmyndahátíðinni í Róm í október það ár.

Burton réði Bellucci síðan til að leika illmennið Dolores í framhaldsmyndinni Beetlejuice Beetlejuice (2024).

„Þetta er einn af þessum hlutum sem gerist sjaldan í lífinu... Ég þekki manninn, ég elska hann og núna mun ég kynnast leikstjóranum - annað ævintýri hefst,“ sagði Bellucci um samband sitt við Burton skömmu eftir að tilkynnt var að hún myndi leika í myndinni.

Burton var giftur listakonunni Lenu Gieseke frá 1987 til 1991, í sambandi með leikkonunni Lisu Marie Presley frá 1993 til 2001 og svo með Helenu Bonham Carter frá 2001 til 2014 en þau eiga tvo syni saman. Bellucci var gift argentínska söngvaranum Claudio Carlos Basso frá 1990 til 1994) og Vincent Cassel frá 1999 til 2013 en þau eiga tvö börn saman.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.