Fótbolti

Töpuðu fyrir Ís­landi en ekki í Meistara­deildinni

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Qarabag er með fullt hús stiga í Meistaradeildinni.
Qarabag er með fullt hús stiga í Meistaradeildinni. Aziz Karimov/Getty Images

Eftir tvær umferð í Meistaradeildinni er Qarabag eitt af sex liðum með fullt hús stiga. Margir leikmenn liðsins eru einnig landsliðsmenn Aserbaísjan, sem steinlá á dögunum fyrir Íslandi í 5-0 sigri strákanna okkar á Laugardalsvelli.

Qarabag hefur fagnað frábæru gengi í fyrstu tveimur umferðunum og er með fullt hús stiga, líkt og Bayern Munchen, Real Madrid, PSG, Inter og Arsenal. 

Qarabag vann FC Kaupmannahöfn 2-0 á heimavelli í gær eftir að hafa sótt 2-3 endurkomusigur gegn Benfica í Portúgal í fyrstu umferðinni.

Vinstri bakvörðurinn Elvin Jafarquliyev hefur staðið sig með prýði í þeim leikjum en hann átti í miklum vandræðum með Jón Dag Þorsteinsson, sem lagði tvö mörk upp gegn Aserbaísjan á Laugardalsvelli.

Sömu sögu má segja af miðverðinum Bahlul Mustafazade, sem tókst að halda marki Qarabag í hreinu í gær, en stóð sig ekki jafn vel þegar hann dekkaði Guðlaug Victor Pálsson í fyrsta marki Íslands.

Framherjinn Narim Akhundzade átti öfluga innkomu í gær og lagði annað mark Qarabag upp, en komst lítið á boltann í leiknum gegn Íslandi.

Fyrir stuðningsmenn Íslands, sem sáu leikinn gegn Aserbaísjan er ansi magnað að fylgjast með góðu gengi Qarabag í Meistaradeildinni.

Alls eru sjö leikmenn Qarabag landsliðsmenn Aserbaísjan. Þeir þrír sem taldir eru upp hér fyrir ofan en einnig Abbas Husyenov, Tural Bayramov og Musa Qurbanli, hægri bakvörður, miðjumaður og framherji landsliðsins. Þeir hafa allir komið inn af varamannabekknum fyrir Qarabag í fyrstu tveimur umferðunum. 

Markvörður landsliðsins, Shakhruddin Magomedaliyev, er svo varamarkmaður Qarabag og spilar lítið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×