Handbolti

„Fjár­hags­staðan býður ekki upp á það að við leikum okkur með þann miða­fjölda“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Einhverjir stuðningsmenn Íslands hafa ekki fengið miða á HM kvenna í handbolta.
Einhverjir stuðningsmenn Íslands hafa ekki fengið miða á HM kvenna í handbolta. vísir/vilhelm

Framkvæmdastjóri HSÍ segir að sambandið hafi ekki haft ráð á því að taka frá fjölda miða fyrir HM í handbolta kvenna sem hefst í næsta mánuði. HSÍ hafa borist óskir um miða og reynir eftir fremsta megni að koma til móts við þá sem vilja komast á mótið.

Ísland tekur þátt á heimsmeistaramótinu sem fer fram í Þýskalandi og Hollandi frá 26. nóvember til 14. desember. Ísland er í C-riðli ásamt Þýskalandi, Serbíu og Úrúgvæ. Þrjú efstu liðin komast áfram í milliriðil. Leikirnir í C-riðli fara fram í Porsche-Arena í Stuttgart.

„Við fengum forsölu á HM í júlí sem var auglýst rækilega á okkar miðlum, eins og við gerum karlamegin, nema það var styttri tími sem við fengum kvennamegin. Síðan seldist upp á mótið,“ sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, í samtali við Vísi.

„HSÍ hefur ekki fjármuni til að kaupa og taka frá hundruði miða og liggja með þá upp á von og óvon. Þess vegna höfum við auglýst forsölu þannig að það voru ekki nein mistök í því. Ef þú tekur 250 miða frá hleypur það á milljónum. Fjárhagsstaða sambandsins býður ekki upp á það að við leikum okkur með þann miðafjölda.“

Aðspurður hvort allir sem vildu fá miða á HM hafi fengið miða segir Róbert að svo hafi verið í sumar en tímasetningin á forsölunni hafi ekki verið sú heppilegasta.

„Þetta er bara óheppilegur tími upp á það að gera að þetta er í miðju sumarfríi hjá fólki og það er kannski almennt ekki byrjað að skipuleggja haustið. En miðasalan var auglýst og það eru enn til miðar á milliriðla en það er uppselt á riðlakeppnina,“ sagði Róbert.

En geta þeir sem vilja fá miða á leiki Íslands í riðlakeppninni því ekkert gert?

„Við höfum fengið fyrirspurnir og verið að sjá hvort við getum orðið okkur út um miða, mögulega í gegnum önnur sérsambönd, en það hefur ekki gengið. En við munum að sjálfsögðu halda áfram,“ svaraði Róbert.

Fyrsti leikur Íslands á HM er gegn heimaliði Þýskalands 26. nóvember. Tveimur dögum seinna mæta Íslendingar Serbum og svo Úrúgvæum 30. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×