Handbolti

Vara­for­seti EHF hand­tekinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Predrag Boskovic á fundi NATO þegar hann var varnarmálaráðherra Svartfjallalands.
Predrag Boskovic á fundi NATO þegar hann var varnarmálaráðherra Svartfjallalands. EPA/STEPHANIE LECOCQ

Varaforseti Handknattleikssambands Evrópu er ekki í alltof góðum málum en hann er grunaður um aðild að glæpasamtökum.

Varaforseti EHF heitir Predrag Boskovic og er 53 ára gamall Svartfellingur. Hann hefur verið varaforseti EHF síðan árið 2016.

Boskovic er einnig þingmaður í Svartfjallalandi og var bæði varnarmálaráðherra og menntamálaráðherra landsins á sínum tíma.

Bošković var handtekinn á mánudag í Podgorica, höfuðborg Svartfjallalands, grunaður um aðild að glæpasamtökum sem beinast markvisst gegn pólitískum andstæðingum. Þetta kemur fram í frétt miðilsins Vijesti.

Samhliða stöðu sinni hjá EHF er Predrag Bošković í aðalstjórn Lýðræðislega sósíalistaflokksins (DPS) í Svartfjallalandi.

Boskovic neitar sök í ákærunum og var látinn laus eftir handtökuna þar sem dómari við hæstaréttinn í Podgorica féllst ekki á kröfu saksóknara um gæsluvarðhald.

Boskovic þarf þó að gefa sig reglulega fram við lögreglu svo vitað sé hvar hann er niðurkominn.

Þann 21. desember fer fram forsetakjör hjá Alþjóðahandknattleikssambandinu (IHF) í tengslum við þing sambandsins í Kaíró. Boskovic er einnig stjórnarmaður í Alþjóðahandknattleikssambandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×