Fótbolti

Amanda fagnaði stigi gegn ensku meisturunum

Sindri Sverrisson skrifar
Leikmenn Twente fögnuðu vel eftir að hafa komist yfir í kvöld, gegn stórliði Chelsea.
Leikmenn Twente fögnuðu vel eftir að hafa komist yfir í kvöld, gegn stórliði Chelsea. Getty/Teresa Kröger

Það var vel fagnað í Hollandi í kvöld þegar Twente, liði Amöndu Andradóttur, tókst að landa stigi gegn Englandsmeisturum síðustu sex ára í röð, Chelsea, í fyrsta leik sínum í Meistaradeild Evrópu í fótbolta.

Leikurinn fór 1-1 og er óhætt að segja að þetta séu stór úrslit fyrir Twente sem er aðeins í annað sinn í keppninni, og var í kvöld að mæta liði sem til að mynda komst í undanúrslitin á síðustu leiktíð.

Hollenski fyrirliðinn Danique van Ginkel kom Twente yfir á 62. mínútu með frábæru skoti en Sandy Baltimore jafnaði metin úr vítaspyrnu þegar tuttugu mínútur voru eftir, eftir að brotið var á Guro Reiten innan teigs.

Amanda var á bekknum lengst af en kom inn á sem varamaður á 88. mínútu.

Í öðrum leik sem var að ljúka vann Real Madrid stórsigur á Roma, 6-2, á Spáni. Caroline Weir og Alba Redondo skoruðu tvö mörk hvor.

Leikirnir voru í fyrstu umferð nýju útgáfunnar af Meistaradeildinni, þar sem öll átján liðin leika saman í deild líkt og karlamegin, í stað riðlakeppni áður.

Jafnt í Íslendingaslag í Evrópubikarnum

Í Evrópubikarnum, nýju og næstbestu Evrópukeppninni, náði  Braga í gott jafntefli gegn Anderlecht í Íslendingaslag í Belgíu, 1-1. Liðin mætast svo aftur í Portúgal í næstu viku og sigurliðið í einvíginu kemst í aðalkeppni Evrópubikarsins. 

Guðrún Arnardóttir lék allan leikinn í kvöld, í vörn Braga, og Ásdís Karen Halldórsdóttir kom inn á sem varamaður, á 68. mínútu. Vigdís Lilja Kristjánsdóttir lék allan leikinn fyrir Anderlecht.


Tengdar fréttir

Cecilía og Karólína komnar inn um dyrnar

Það er alveg hægt að segja að Inter, lið Cecilíu Ránar Rúnarsdóttur og Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur, sé komið inn í Evrópubikarinn í fótbolta þó að liðið eigi eftir seinni leik sinn við albanska liðið Vllaznia. Fyrri leikurinn fór 7-0 á Ítalíu í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×