Handbolti

Haukar skelltu ÍBV í Eyjum

Árni Jóhannsson skrifar
Haukar höfðu ríka ástæðu til að fagna í dag.
Haukar höfðu ríka ástæðu til að fagna í dag. Vísir/Hulda Margrét

Einn leikur var í dag í sjöttu umferð Olís deildar karla í handbolta í dag þar sem Haukar sóttu Eyjamenn heim. Haukar áttu ekki í miklum vandræðum í dag með heimamenn og skelltu þeim 29-39.

Haukar byrjuðu betur og komust snemma í fjögurra marka forskot þegar um 10 mínútur voru liðnar af leiknum í stöðuna 5-9. Eyjamenn bitu þá í skjaldarrendur og náðu að minnka muninn í eitt mark 9-10 en þá var Haukavélin ræst og Hafnfirðingar litu ekki til baka. Staðan var 13-20 í hálfleik og brekkan brött fyrir heimamenn.

Seinni hálfleikur var svo eiginlega formsatriði en Eyjamenn komust ekki nær en sex mörkum. Haukar komust mest yfir 12 mörkum í stöðuna 27-39 en leium lauk með 10 marka mun 29-39.

Elís Þór Aðalsteinsson var markahæstur heimamanna með 10 mörk í 11 skotum og Andri Erlingsson skoraði sjö mörk. Hjá Haukum skoraði Birkir Snær Steinsson 10 mörk í 12 skotum og Hergeir Grímsson skoraði sjö mörk í sjö skotum. Magnús Gunnar Karlsson varði níu skot fyrir Hauka og Petar Jokanovic varði átta fyrir heimamenn en það dugði skammt.

Haukar jafna Aftureldingu að stigum í Olís deildinni en bæði lið eru með 10 stig eftir sex umferðir. ÍBV er í sjötta sæti með sex stig eftir sama leikjafjölda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×