Fótbolti

Lukaku segist hafa verið fjárkúgaður af fólki sem vildi ekki skila líki föður hans

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Romelu Lukaku varð ítalskur meistari með Napoli á síðasta tímabili.
Romelu Lukaku varð ítalskur meistari með Napoli á síðasta tímabili. epa/CESARE ABBATE

Romelu Lukaku, framherji Napoli og belgíska landsliðsins, segir að óprúttnir aðilar hafi reynt að kúga af honum fé með því að neita að afhenda honum lík föður hans.

Roger Lukaku, faðir Romelus, lést 28. september síðastliðinn, 58 ára að aldri. Hann var fyrrverandi fótboltamaður og lék lengi í Belgíu þar sem hann festi rætur.

Lukaku birti færslu á Instagram þar sem hann greindi frá því að hann og bróðir hefðu orðið fyrir fjárkúgun.

Lukaku segir að útför föður hans hefði átt að fara fram á föstudaginn en sökum ákvarðana sem hafi verið teknar í Kinshasa, höfuðborg Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó, muni útförin fara fram þar í landi.

Lukaku og bróðir hans segir að þeir hafi upplifað að ákveðnir aðilar hafi reynt að kúga fé af þeim með því að neita að afhenda þeim lík föður þeirra.

„Það særir okkur að geta ekki lagt föður okkar til hinstu hvílu. Við skiljum af hverju hann hélt okkur frá mörgu fólki. Guð blessi sál þína,“ skrifaði Lukaku í færslunni á Instagram.

Lukaku hefur ekkert spilað með Napoli eða belgíska landsliðinu á tímabilinu vegna meiðsla. Yngri bróðir hans, Jordan, er einnig fótboltamaður og var síðast á mála hjá Adanaspor í Tyrklandi. Hann hefur leikið átta landsleiki fyrir Belgíu.

Faðir þeirra lék þrettán leiki og skoraði sex mörk fyrir landslið Zaire, eins og Lýðstjórnarveldið Kongó hét áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×