Skoðun

Tími til að fagna, minna á og hvetja á­fram – 50 ár frá Kvenna­verk­fallinu

Ólöf Kristjánsdóttir skrifar

Í þessum mánuði eru liðin fimmtíu ár frá fyrsta Kvennaverkfallinu á Íslandi. Á þessum tímamótum er við hæfi að staldra við, líta um öxl og meta stöðu jafnréttismála í dag.

Árangur náðst í mörgu

Það er augljóst að mikill árangur hefur náðst í kvennabaráttunni. Ísland stendur fremst meðal jafningja og ólíklegt er að það væri raunin án Kvennaverkfallsins 1975. Verkfallið vakti mikla umræðu, breytti viðhorfum og markaði tímamót í sögu þjóðarinnar. Við höfum notið ávinningsins æ síðan. Atvinnuþátttaka kvenna er með því hæsta sem þekkist, menntunartækifæri eru fjölmörg og mörg glerþök hafa verið brotin á þessum fimm áratugum. Það er erfitt að ímynda sér að konur gegndu embættum forseta Íslands, forsætisráðherra, biskups, ríkislögreglustjóra og rektors Háskóla Íslands á sama tíma ef ekki hefði komið til Kvennaverkfallsins 1975.

Launamismunur þrjóskast við

Þrátt fyrir mikinn árangur er launamismunur enn til staðar. Það má meðal annars rekja til þess að stórar kvennastéttir, eins og kennarar og hjúkrunarfræðingar, eru lægra launaðar en sambærilegar karlastéttir. Leikskólamál eru enn föst í flækjum sveitarfélaganna, bakslags hefur gætt í ýmsum réttindamálum og fólk af erlendum uppruna stendur oft höllum fæti. Þá eru forstjórar í skráðum félögum á hlutabréfamarkaði enn að miklum meirihluta karlar.

Höldum áfram að gera það sem gengur vel

Þessi staða sýnir að jafnrétti kemur ekki af sjálfu sér. Það þarf að halda áfram að vinna markvisst að breytingum og byggja á þeim árangri sem þegar hefur náðst. Fjölmörg samtök og stofnanir vinna ótrauð að því að standa vörð um þau réttindi sem þegar hafa unnist og vekja athygli á því sem betur má fara. WomenTechIceland vinnur að því að tryggja jöfn tækifæri allra kynja í tæknigeiranum á Íslandi og leggur áherslu á að bjóða stuðning, efla baráttuanda og vera málsvari minnihlutahópa í tækni. Við gerum það með fræðslu, viðburðum og því að veita stjórnvöldum aðhald í stefnumótun. Í tilefni fimmtíu ára afmælis Kvennaverkfallsins, og sem hluti af viðburðaröð Kvennaárs, stendur WomenTechIceland fyrir fjáröflunarkvöldi þann 23. október. Þar verður safnað í tímahylki fyrir komandi kynslóðir, þar sem við skiljum eftir sögur, hvatningu og góð ráð til framtíðarinnar.

Nýtum tímann vel í þessum mánuði. Mætum á viðburði Kvennaársins, sýnum samstöðu og minnum okkur á að samtakamátturinn er okkar sterkasta vopn í áframhaldandi baráttu fyrir jafnrétti.

Höfundur er formaður WomenTechIceland.




Skoðun

Sjá meira


×