Erlent

Fjöldi komst ekki út og brann lifandi

Eiður Þór Árnason skrifar
Bhajan Lal Sharma, æðsti kjörni embættismaður Rajasthan-fylkis, kannaði aðstæður á vettvangi eftir brunann.
Bhajan Lal Sharma, æðsti kjörni embættismaður Rajasthan-fylkis, kannaði aðstæður á vettvangi eftir brunann. Yfirvöld í Rajasthan

Minnst 20 fórust þegar eldur kviknaði í farþegarútu í norðurhluta Indlands í gær. Talið er að 35 til 50 farþegar hafi verið um borð þegar ökumaður rútunnar hóf för milli bæjanna Jaisalmer og Jodhpur í Rajasthan-fylki.

Þetta hefur AP-fréttaveitan eftir stjórnarþingmanninum Mahant Pratap Puri. Eldurinn hafi brotist út með slíkum hraða að farþegar hafi ekki náð að koma sér út úr rútunni. Talið er að eldsvoðinn hafi kviknað út frá skammhlaupi.

Lík 19 farþega voru fjarlægð úr rútunni en einn lést af brunasárum á leiðinni á sjúkrahús, að sögn Puri. Hið minnsta 15 aðrir farþegar særðust alvarlega og voru lagðir inn á sjúkrahús til aðhlynningar.

Puri segir að reykur hafi byrjað að stíga upp frá afturhluta rútunnar tæplega fimm mínútum eftir að hún hóf ferðina frá Jaisalmer. Bílstjórinn hafi stöðvað rútuna í vegkanti nærri herstöð en fljótlega hafi eldur logað.

Óskuðu eftir aðstoð ættingja

„Þetta var ný rúta full af loftkælingargasi. Það var bara ein hurð fyrir inn- og útgang. Því miður komust farþegarnir sem sátu aftar ekki að úrganginum og brunnu lifandi,“ bætti Puri við sem var á vettvangi þegar yfirvöld og hermenn hófu björgunaraðgerðir.

Svæðisyfirvöld óskuðu eftir aðstoð ættingja til að staðfesta nöfn fórnarlamba og ætla að bera kennsl á líkamsleifar með hjálp erfðasýna.

Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, og Bhajan Lal Sharma, æðsti kjörni embættismaður Rajasthan, hafa vottað syrgjandi fjölskyldum samúð sína. Rajasthan-fylki er það stærsta á Indlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×