Sport

Furðu­legasta hlaup ársins inni­hélt skyldustopp á Taco Bell

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlaupararnir urðu að stoppa reglulega á Taco Bell veitingastaðnum.
Hlaupararnir urðu að stoppa reglulega á Taco Bell veitingastaðnum. Getty/Huw Fairclough/Kevin Carter

Það eru til margs konar maraþonhlaup úti um allan heim en eitt það sérstakasta hlýtur að hafa farið fram á dögunum í Denver í Colarado-fylki.

Hér erum við að tala um hina furðulegu þrekraun sem er Alþjóðlega Taco Bell 50 km ofurmaraþonið.

Hlauparnir kláruðu þar fimmtíu kílómetra hlaup um borgina en með skyldustoppi á tíu Taco Bell-stöðum.

Til að ljúka keppni þurfa þátttakendur að panta og borða eitthvað á níu af tíu stöðum, þar á meðal Chalupa Supreme eða Crunchwrap fyrir fjórða stopp og Burrito Supreme eða Nachos BellGrande fyrir áttunda stopp.

Hlauparar hafa ellefu klukkustundir til að ljúka brautinni, verða að geyma allar kvittanir og umbúðir og mega ekki nota magalyf eins og Pepto eða Alka-Seltzer. Ef þú kastar upp ertu umsvifalaust dæmd(ur) úr leik.

Salernisferðir eru leyfðar, en aðeins inni á Taco Bell-stöðum eða á einu fyrir fram samþykktu almenningssalerni.

Hlaupið í ár, sem nú er haldið í áttunda sinn, laðaði að yfir sjö hundruð þátttakendur, þótt Taco Bell komi ekki opinberlega að málum og forðist að sögn að tjá sig af lagalegum ástæðum.

Þeir sem luku keppni fengu verðlaunapeninga gerða úr Taco Bell-sósupökkum sem límdir voru á borða. Einn hlaupari sem nýlega lauk Berlínarmaraþoninu sagði þetta vera „töluvert erfiðara.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×