Atvinnulíf

Biður vini og vanda­menn um að taka sér­stak­lega eftir gólf­listunum

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Stefán Jökull Stefánsson, stjórnarformaður fjártæknifyrirtækisins Kríta, segir heimilið nokkuð fjörugt á morgnana. Enda búi hann með þremur konum og yfir morgunkaffinu þurfi því að taka þátt í spjallinu um hvað er í nesti, hver er að fara hvert og hvað er framundan eftir skóla eða íþróttir. 
Stefán Jökull Stefánsson, stjórnarformaður fjártæknifyrirtækisins Kríta, segir heimilið nokkuð fjörugt á morgnana. Enda búi hann með þremur konum og yfir morgunkaffinu þurfi því að taka þátt í spjallinu um hvað er í nesti, hver er að fara hvert og hvað er framundan eftir skóla eða íþróttir.  Vísir/Anton Brink

Stefán Jökull Stefánsson, stjórnarformaður Krítar segist oft fá bestu hugmyndirnar sínar á hlaupum. En talandi um hlaup, sé undirbúningurinn að maraþonhlaupi í Frakklandi í nóvember orðið jafn umfangsmikið og aukastarf.

Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.

Hvenær vaknar þú á morgnana?

„Úrið titrar á úlnliðnum á mér klukkan 7:30. Stundum er ég kominn á fætur áður en það gerist, stundum ekki. Lengi vel var ég morgunhani og á mér enn þann draum að nýta ró morgnanna áður en heimilið vaknar. En í þessum aðstæðum er sjálfsaginn veikastur.“

Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?

„Að konunni minni meðtaldri eru þrjár stelpur á heimilinu, sem þýðir að það er fjör í gangi þegar ég mæti fram. Ég næ mér í morgunkaffið, heilsa stelpunum og sest í stól með útsýni yfir eldhúsið og stofuna. Þaðan fylgist ég með og tek þátt í spjalli um daginn framundan, hvað er í nesti, hver er að fara hvert og hvað er framundan í skóla eða íþróttum.“

Nefndu eitthvað eitt sem þú ert afar stoltur af að sjá um á heimilinu?

„Ég sé um eldamennskuna að mestu og flest sem tengist framkvæmdum á heimilinu. Eftir að við komum okkur fyrir á Álftanesi og tókum þar hús í gegn síðasta árið, að mestu sjálf, hef ég smám saman unnið mig niður verkefnalistann. 

Um þessar mundir er ég stoltur að hafa loksins klárað gólflistana. Verkefni sem ég frestaði lengi af ótta við að það væri of mikil nákvæmnisvinna. 

Eftir að hafa prófað mig fyrst áfram í geymslunni er því verki nú næstum lokið. 

Ég bið vini og vandamenn sem koma í heimsókn að taka sérstaklega eftir frágangnum á gólflistunum.“

Stefán segir mörg af sínum stærstu verkefnum hafa orðið til og verið skipulögð á hlaupum. Í seratónínvímunni eftir hlaup dembir hann síðan hugmyndunum á sína nánustu. Sem flest eru orðin þaulvön því.Vísir/Anton Brink

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?

„Þetta ár hefur farið í að koma okkur fjölskyldunni fyrir eftir að hafa starfað og búið erlendis síðustu átta ár. Samhliða tók ég við daglegum rekstri fjártæknifyrirtækisins Kríta þegar ég flutti heim síðasta haust, en Kríta styður við íslensk fyrirtæki með fjármögnun. Við erum á spennandi ferðalagi að breyta því hvernig fyrirtæki fjármagna sig og gera ferlið hraðara, gagnsærra og mannlegra.

Auk þessa fæ ég mikla orku úr því að styðja önnur fyrirtæki, bæði sem stjórnarmaður og ráðgjafi í tækni- og vaxtarverkefnum. Þeirra á meðal er Withsara.com, fyrirtæki sem konan mín stofnaði og býður upp á æfingavettvang fyrir konur út um allan heim.

Loks ákvað ég að hlaupa maraþon í Nice í Frakklandi í nóvember næstkomandi. Það reyndist fljótt tímafrekt og er orðið að eins konar aukastarfi.“

Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?

„Yfirleitt hef ég góða yfirsýn í kollinum yfir þau daglegu verkefni sem þarf að sinna og treysti á innsæið til að forgangsraða því sem hreyfir mest við brýnustu viðfangsefnunum. Þegar maður fer út í lengri hlaup, þá myndast oft einhver skýrleiki í hugsun og hugmyndum. Líklega blanda af súrefni, ró og seratóníni.

Mörg af mínum stærstu verkefnum hafa orðið til og verið skipulögð á hlaupum. 

Það er síðan í seratónínvímu eftir hlaup sem ég dembi hugmyndum á konuna mína, nánustu vini eða samstarfsfélaga – sem flest eru orðin vön því.“

Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?

„Ég reyni að fara að sofa um ellefuleytið, og það tekst yfirleitt ágætlega. En það gerist líka oft að konan mín sofni aðeins á undan mér, og þá fara símtölin í gang. Annaðhvort hringi ég í vinina eða þeir í mig. Við leysum eitthvað vandamál eða rýnum í hugmyndir og lífið. Ég hef áttað mig á því að ég þarf reglulega að eiga djúpar samræður til að vera andlega örvaður – hér nægir ekki að tala um veðrið.

Ég sofna svo alltof oft við hlaðvarp, yfirleitt eitthvað tengt sagnfræði. Það getur verið hvað sem er, en ef það snýst um forna menningarheima, dularfullar atburðarásir eða seinni heimsstyrjöldina, þá sofna ég hamingjusamur og hratt.“


Tengdar fréttir

Steinhissa á MR og rifjar lúmskt upp sjónvarpsleysið á fimmtudögum

Með fjóra unglinga á heimilinu snýst stærsta spurningin á morgnana um það hversu margir verða í kvöldmat segir Gunnar Tryggvason, hafnarstjóri Faxaflóahafna. Sem segir Fallin spýta og kýló hafa verið uppáhalds útileikirnir hans á Ísafirði forðum daga.

Sannfærð um að hún var Skoti í fyrra lífi

Unnur Ýr Konráðsdóttir, mannauðstjóri og varaformaður Mannauðs, liggur áfram upp í rúmi og kíkir á símann sinn á meðan hún bíður eftir því að baðherbergið losni á morgnana. Enda tveir unglingar á heimilinu sem hún segir þurfa sinn tíma þar.  

„Er nú rétt að jafna mig á slæmu Wham! blæti“

Dellukallinn Guðni Aðalsteinsson, forstjóri Reita fasteignafélags, er ekkert fyrir að dúlla sér á morgnana. Er ýmist kominn út á augnabliki eða korteri. Guðni segist frekar myndi velja að vera með Tinna í flugsætinu við hliðina á sér en Elon Musk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×