Körfubolti

Nýr Ár­menningur „með allan pakkann“ og pabba sem vann NBA

Sindri Sverrisson skrifar
Eins og sjá má átti Dibaji Walker frábæran fyrsta leik á Íslandi þó að það dygði ekki til sigurs á útivelli gegn Val.
Eins og sjá má átti Dibaji Walker frábæran fyrsta leik á Íslandi þó að það dygði ekki til sigurs á útivelli gegn Val. Sýn Sport

Hinn bandaríski Dibaji Walker heillaði sérfræðinga Bónus Körfuboltakvölds með frammistöðu sinni í fyrsta leiknum fyrir nýliða Ármanns í Bónus-deildinni í síðustu viku.

Walker hafði þurft að bíða eftir atvinnuleyfi og misst af fyrstu tveimur leikjum Ármanns en fékk svo leyfið síðdegis síðastliðinn fimmtudag, rétt fyrir leikinn við Val. Þar skoraði hann 34 stig, tók níu fráköst og átti fimm stoðsendingar, svo eitthvað sé nefnt, og spilaði allar 40 mínúturnar.

Klippa: Umræður um nýjan Kana Ármanns

„Þetta er rosalega „solid“ leikmaður. Hann kann leikinn upp á tíu og er sérstaklega mikill skorari. Hann er með allan pakkann. Svo er hann ósérhlífinn. Ég kann að meta það í fari leikmanna. Hann er bara í körfu og gerir allt til að liðið og sjálfan sig betri,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson í Körfuboltakvöldi. Teitur Örlygsson tók undir það.

Pabbinn NBA-meistari með Kobe og Shaq

„Hann er líka óhræddur við „contact“. Hann er sterkari en hann lítur út fyrir að vera. Er mjög grannur og með þetta skot… Ég held ég hafi séð hann spila fyrir þremur vikum, voðalega gengur illa að fá þessi leyfi í dag. En þetta er hörkustrákur,“ sagði Teitur.

Stefán Árni Pálsson benti svo á þá staðreynd að pabbi Dibaji, Samaki Walker, hefði náð langt í körfubolta en hann varð NBA-meistari með Kobe Bryant, Shaquille O‘Neal og fleirum þegar LA Lakers unnu árið 2002.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×