Innlent

Mætti með kíló af kókaíni og sau­tján kíló af marijúana

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn kom til Keflavíkurflugvallar með flugi frá Kanada.
Maðurinn kom til Keflavíkurflugvallar með flugi frá Kanada. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í tuttugu mánaða fangelsi fyrir að hafa reynt að smygla rétt rúmlega kílói af kókaíni og sautján kílóum af marijúana með flugi til landsins í október síðastliðinn.

Maðurinn kom til Keflavíkurflugvallar með flugi frá Kanada og var hann með efnin falin í farangurstöskum. Í ákæru segir að efnin hafi verið ætluð til söludreifingar hér á landi.

Maðurinn játaði sök samkvæmt ákæru en af fyrirliggjandi gögnum var ekki talið að maðurinn hafi verið eigandi efnanna heldur samþykkt að flytja efnin til landsins gegn greiðslu.

Litið var til þessa við ákvörðun refsingar, auk greiðrar játningar, en í niðurstöðukafla segir að ekki verði horft fram hjá því hann hafi flutt verulegt magn af sterku kókaíni og verulegu magni af marijúana til landsins sem ætlað til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.

Dómari mat hæfilega refsingu vera tuttugu mánaða fangelsi en til frádráttar kom gæsluvarðhald sem hann sætti. Auk þess var maðurinn dæmdur til greiðslu 1,4 milljóna króna í sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×