Skoðun

Hvað eiga kaffi­húsin á 18. öld á Eng­landi og gervi­greind sam­eigin­legt?

Stefán Atli Rúnarsson skrifar

Snemma á 18. öld og á síðari hluta 17. aldar fóru kaffihús að spretta upp í Englandi. Áður drakk fólk oft öl eða vín, þar sem vatnið gat verið óhreint, en með tilkomu kaffisins breyttist allt. Kaffið gaf fólki orku og skýrleika, og umræðurnar sem áttu sér stað á þessum stöðum urðu til þess að hugmyndir spruttu fram sem mótuðu heila öld.

Í London gat maður keypt sér bolla á eyri og fengið aðgang að fréttum, tengslaneti og rökræðum eins konar opið háskólanám án inntökuprófa. Án áfengis varð andrúmsloftið skýrara og fólk fór að hugsa og tala á annan hátt. Þar urðu til hugmyndir sem við eigum enn að þakka fyrir í dag: sjótryggingar og áhættustýring, hlutabréfamarkaðir, almenningsálit og siðferðisumræða, og vísindaleg menning upplýsingaaldarinnar.

En hvað hefur þetta með okkur að gera núna?

Ég myndi segja að gervigreindin í dag sé kaffið á 18. öld. Hún hjálpar okkur að hugsa skýrar, prófa hugmyndir og auka afköst á nánast hvaða sviði sem er. Sumir óttast hana, rétt eins og menn efuðust um nýjungar á sínum tíma, en möguleikarnir eru margfalt fleiri en ógnirnar.

Hugsaðu þér kaffihús rekið af gervigreind: vél sem tekur á móti pöntunum, sér um birgðir og hellir upp á bolla fyrir þig. Þetta er fyndin mynd, en hún undirstrikar eitt – að framtíðin snýst ekki um mann eða vél, heldur mann og vél saman.

Við stöndum á tímapunkti!

Ég trúi því að við stöndum á svipuðum tímapunkti og Englendingar gerðu þegar kaffið kom fyrst til sögunnar. Ný tækni sem hristir upp í daglegu lífi, breytir því hvernig við hugsum og opnar dyr að nýjum hugmyndum. Spurningin er bara: hvað mun fæðast á okkar „kaffihúsum“ í dag?

Höfundur er viðskiptafræðingur, áhugamaður og fyrirlesari í málefnum gervigreindar.




Skoðun

Skoðun

Komið gott!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×