Fótbolti

Ó­trú­legur Kane sá við Messi og Ronaldo

Valur Páll Eiríksson skrifar
Kane fer mikinn þessi dægrin.
Kane fer mikinn þessi dægrin. Stefan Matzke - sampics/Getty Images

Enski framherjinn Harry Kane fer mikinn í upphafi leiktíðar með Bayern Munchen. Hann skoraði eitt marka liðsins í 4-0 sigri á Club Brugge í Meistaradeild Evrópu í gær og hefur því skorað 20 mörk á leiktíðinni - á mettíma.

Kane skoraði klassískt framherjamark eftir stundarfjórðungsleik í öruggum sigri Bæjara í Munchen í gær. Um var að ræða tólfta leik hans á leiktíðinni fyrir félag og landslið og í þessum tólf leikjum hefur hann skorað 20 mörk.

Enginn hefur komist yfir 20 marka múrinn í svo fáum leikjum og bætir hann met Cristiano Ronaldo frá 2014. Ronaldo skoraði þá 20 mörk í 13 leikjum fyrir Real Madrid og Portúgal. Lionel Messi hefur þrisvar komist í 20 mörkin í fyrstu 17 leikjum tímabils.

Kane er þá nærri því að bæta met Wayne Rooney yfir flest mörk Englendings fyrir eitt og sama félagið í Meistaradeildinni. Rooney er eini Englendingurinn sem hefur afrekað það, en það gerði hann með Manchester United.

Þrátt fyrir skamman tíma í Bæjaralandi hefur Kane skorað 23 mörk fyrir félagið í Meistaradeild og virðist aðeins tímaspursmál hvenær hann bætir met Rooney. Áður skoraði Kane 21 mark fyrir Tottenham í Meistaradeildinni.

Kane skoraði 400. mark sitt á ferlinum gegn Borussia Dortmund síðustu helgi og hefur þegar skorað 100 mörk fyrir Bayern í öllum keppnum, fljótar en nokkur annar. Alls hefur Kane skorað 105 mörk í 108 leikjum fyrir Bayern.

Bayern hefur unnið alla þrjá leiki sína í Meistaradeildinni hingað til, með markatöluna 12-2. Af mörkunum tólf hefur Kane skorað fimm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×