Erlent

Vinstrikonan um­deilda vann sann­færandi sigur á Ír­landi

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Catherine Connolly var kjörin forseti Írlands í dag.
Catherine Connolly var kjörin forseti Írlands í dag. AP

Catherine Connolly vann sannfærandi sigur í nýafstöðnum kosningum til embættis forseta Írlands. Hún er írskumælandi sósíalisti sem er neikvæður í garð Evrópusambandsins og Atlantshafsbandalagsins.

Connolly hlaut um 64 prósent atkvæða, gegn 29 prósentum helsta keppinautar síns Heather Humphreys.

Connolly þykir nokkuð umdeild og varð mótframbjóðendum hennar tíðrætt um meintar öfgar hennar í herferðum sínum. Hún er 68 ára gömul og starfaði lengi sem lögmaður og klínískur sálfræðingar. Hún hefur setið á þingi sem óháður þingmaður frá árinu 2016 en áður var hún borgarstjóri Galway á vesturströnd Írlands.

Líkt og fjallað hefur verið um víða hafa ummæli hennar um Hamas sætt gagnrýni en hún lýsti þeim sem „hluta af samfélagsgerð palestínsku þjóðarinnar. Hún hefur deilt á framferði Ísraela á Gasaströndinni harkalega og sagt þá fremja þar hópmorð.

Hún hefur einnig verið gagnrýnin á Evrópusambandið og sérstaklega það sem hún kallar „hervæðingu“ þess. Það vakti litla hrifningu í Þýskalandi þegar hún líkti boðaðri útgjaldaaukningu þeirra til varnarmála við hervæðingu nasista í aðdraganda heimsstyrjaldarinnar síðari.

Embætti forseta Írlands svipar um margt til þess íslenska og hafa forsetar verið mispólitískir í gegnum sögu lýðveldisins. Michael D. Higgins fráfarandi forseti hefur til dæmis gagnrýnt framferði Ísraela á Gasa og aukningu framlaga til Atlantshafsbandalagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×