Erlent

Gómuðu aftur manninn sem þeir slepptu fyrir mis­tök

Samúel Karl Ólason skrifar
Hadush Gerberslasie Kebatu (41), er hælisleitandi frá Eþíópíu en hann var dæmdur fyrir kynferðisbrot, meðal annars gegn táningsstúlku.
Hadush Gerberslasie Kebatu (41), er hælisleitandi frá Eþíópíu en hann var dæmdur fyrir kynferðisbrot, meðal annars gegn táningsstúlku. Lögreglan í Essex

Kynferðisbrotamaður sem sleppt var úr fangelsi í Bretlandi fyrir mistök fyrr í vikunni, var handtekinn í Lundúnum í morgun. Lögreglan í Lundúnum segir að maðurinn hafi fundist vegna ábendinga frá almenningi en málið hefur vakið mikla furðu og reiði á undanförnum dögum.

Einn yfirmanna lögreglunnar í Lundúnum segir í yfirlýsingu að maðurinn verði færður aftur í hendur fangelsismálayfirvalda, sem slepptu honum lausum á föstudaginn.

Hadush Gerberslasie Kebatu (41), hælisleitandi frá Eþíópíu, var dæmdur í síðasta mánuði í tólf mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot, tilraun til kynferðisbrots og áreiti í bænum Epping. Meðal annars reyndi hann að kyssa fjórtán ára stúlku og konu sem bauðst til að hjálpa honum við gerð ferilskrár. Brot hans leiddu til umfangsmikilla mótmæla yfir nokkurra vikna skeið í sumar.

Til stóð að vísa honum úr landi á föstudaginn en fyrir mistök var honum einfaldlega sleppt lausum.

Sjá einnig: Slepptu kynferðisbrotamanni fyrir mistök

Bílstjóri sem kallast Sim og var að flytja farm til fangelsisins í Chelmsford á föstudaginn sagði Sky News að hann hefði séð Kebatu eftir að honum var sleppt þaðan og hann hafi virst mjög ringlaður.

Hann sagði Kebatu hafa spurt sig hvert hann ætti að fara og hvað væri að gerast og að Kebatu hafi beðið fyrir utan fangelsið í um níutíu mínútur og fjórum eða fimm sinnum reynt að fara aftur inn í fangelsið en honum hafi verið vísað á brott.

Sim segir að Kebatu hafi vitað að til stæði að vísa honum úr landi en að starfsfólk fangelsisins hafi sagt honum að búið væri að sleppa honum og hann ætti að fara. Síðar þann dag sást hann í Chelmsford þar sem hann bað um aðstoð við að komast um borð í lest til Lundúna.

David Lammy, dómsmálaráðherra, sagði í morgun að Kebatu yrði vísað úr landi og kannað verði hvað leiddi til þess að honum var sleppt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×