Fótbolti

Mark Kristians gegn gömlu fé­lögunum dugði skammt

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kristian Hlynsson skoraði gegn sínum gömlu félögum í dag.
Kristian Hlynsson skoraði gegn sínum gömlu félögum í dag. Gerrit van Keulen/Soccrates/Getty Images

Kristian Hlynsson skoraði fyrra mark Twente er liðið mátti þola 2-3 tap gegn Ajax í hollensku deildinni í knattspyrnu í dag.

Kristian var að mæta sínum gömlu félögum í dag, en hann var á mála hjá Ajax frá árinu 2020 og þar til í sumar þegar hann gekk í rðair Twente.

Íslenski landsliðsmaðurinn skoraði fyrsta mark leiksins er hann kom Twente yfir strax á fjórðu mínútu leiksins og reyndist það eina mark fyrri hálfleiksins.

Gestirnir í Ajax tóku hins vegar yfir í seinni hálfleik og mörk frá Wout Weghorst, Oscar Gloukh og Mika Godts á sex mínútna kafla snemma í síðari hálfleik gerðu svo gott sem út um leikinn.

Ricky van Wolfswinkel náði þó að minnka muninn fyrir heimamenn með marki úr vítaspyrnu á 64. mínútu, en fleiri urðu mörkin ekki.

Niðurstaðan varð því 2-3 sigur Ajax, sem nú situr í þriðja sæti hollensku deildarinnar með 19 stig eftir tíu leiki, fimm stigum meira en Kristian og félagar sem sitja í níunda sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×