Körfubolti

Veð­mál rædd í Körfu­bolta­kvöldi: „Bara ævin­týra­lega heimsku­legt“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bónus Körfuboltakvöld setti myndin af Kristófer Acox með veðmálaseðil í samhengi við mann í svipaðri stöðu í NBA.
Bónus Körfuboltakvöld setti myndin af Kristófer Acox með veðmálaseðil í samhengi við mann í svipaðri stöðu í NBA. Sýn Sport

Stefán Árni Pálsson og sérfræðingar hans í Bónus Körfuboltakvöldi fóru aðeins yfir þá miklu umræðu að undanförnu sem hefur verið um veðmál og tengsl íslenska körfuboltans við þau.

„Það er mikið búið að fjalla um veðmál. Kristófer Acox var tekinn illa fyrir í fjölmiðlum. Hann þurfti að taka allt til baka eftir að vera kominn í samstarf við ónefnt veðmálafyrirtæki,“ sagði Stefán Árni.

„Hugi Halldórsson, Ofurhuginn sjálfur, stjórnarmaður KKÍ, það var fjallað um hann í dag. Mig langar að setja þetta í einhvers konar samhengi. Þessi umræða og af hverju fólk er að fjalla um þetta,“ sagði Stefán og birti myndir af aðilum í svipaðri stöðu í NBA-deildinni.

Klippa: Umræða um veðmál í Körfuboltakvöldi

„Seðill frá LeBron James. Hlynur, þetta væri mjög skakkt og mjög skrýtið,“ sagði Stefán og kallaði eftir viðbrögðum frá Hlyni Bæringssyni.

„Þú myndir aldrei sjá þetta þarna. Þetta var bara ævintýralega heimskulegt,“ sagði Hlynur Bæringsson, sérfræðingur í Körfuboltakvöldi.

Var ekki að veðja á þessa leiki

„Nota bene, þá held ég að hann hafi ekki verið að veðja á þessa leiki og ég held að hann hafi ekki einu sinni vitað hvað var þarna. Það var samt alveg ævintýralega heimskulegt að auglýsa ólöglega veðmálasíðu,“ sagði Hlynur.

„Ég held meira að segja að Kristófer hafi ekki einu sinni vitað að þessi seðill yrði setur á mynd af honum,“ sagði Stefán og Hlynur tók undir það.

Stefán Árni vildi fá skoðun sérfræðinga sinna um umræðu um veðmál og íþróttir hér á Íslandi.

„Það er eiginlega sorglegt að svona veðmálasíður, sem eru að fá ansi mikinn pening út úr okkar landsmönnum, skuli ekki skila sér til neinna félaga, sambanda eða neins,“ sagði Hermann Hauksson, sérfræðingur í Körfuboltakvöldi.

Tapa peningum og glórunni

„Ef þetta væri þannig, eins og Lottó er, þá væri þetta allt annað dæmi. Þegar þetta er, að það sé verið að auglýsa einhverja síðu sem enginn hagnast á nema sá sem er að reyna vinna einhverja peninga. Svo er fullt af fólki sem er að tapa peningum og tapa glórunni,“ sagði Hermann.

Rosalega sorglegt

„Mér finnst þetta rosalega sorglegt og mér finnst enn þá sorglegra að menn sem eru innan geirans hjá okkur séu að gera þetta. Leikmenn og stjórnarmenn. Mér finnst þetta vera svo mikil vanhugsun að setja andlit sitt og nafn sitt við svona hluti,“ sagði Hermann.

Það má horfa á alla umræðuna hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Stjórnarmaður KKÍ auglýsir ólöglega veðmálastarfsemi

Hugi Halldórsson, stjórnarmaður hjá KKÍ, hefur reglulega auglýst erlenda veðmálafyrirtækið Coolbet, bæði á samfélagsmiðlinum X sem og í hlaðvarpinu 70 mínútum. Framkvæmdastjóri sambandsins vildi lítið tjá sig um málið.

Mál Kristófers enn til skoðunar og fleiri komin á borð KKÍ

Mál Kristófers Acox vegna auglýsingar á ólöglegri veðmálastarfsemi er enn til skoðunar hjá KKÍ sem hefur fengið fleiri ábendingar á þeim nótum. Framkvæmdastjóri sambandsins kallar eftir breytingum á úreltri löggjöf með það fyrir augum að erlend veðmálafyrirtæki séu skattskyld hérlendis.

Kristófer fjarlægir sig frá Coolbet fjölskyldunni

Kristófer Acox og Coolbet hafa fjarlægt allar færslur þar sem leikmaðurinn sést á samfélagsmiðlum veðmálasíðunnar. Körfuknattleiksdeild Vals vildi ekki tjá sig um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×