Innlent

Hætt við að vextir hækki

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Harpa Jónsdóttir er framkvæmdastjóri LSR, sem er stærsti lífeyrissjóður landsins.
Harpa Jónsdóttir er framkvæmdastjóri LSR, sem er stærsti lífeyrissjóður landsins. Aðsend

Framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríksins telur hættu á að vextir fasteignalána muni hækka eftir niðurstöðu í vaxtamálinu svokallaða. Mikil óvissa ríki nú sem sé slæm fyrir neytendur og fjármálafyrirtæki. Hæstiréttur þurfi að setja næstu vaxtamálin í flýtimeðferð.

Heildarlán íslenskra lífeyrissjóða til íslenskra heimila eru um fjórðungur af öllum fasteignalánum fjármálastofnana landsins eða um 740 milljarða króna. Nú þegar er orðið ljóst að nokkrir sjóðanna hafa ákveðið að bíða með að lána ákveðna flokka fasteignalána eftir vaxtadóminn svokallaða þar sem ákveðnir skilmálar fasteignalána með breytilegum vöxtum voru dæmdir ólöglegir. 

Óvissa 

Harpa Jónsdóttir framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins segir að það hafi verið ákveðið strax eftir dóm Hæstaréttar.

„Þetta hefur heilmikil áhrif því það er komin upp ákveðin óvissa. Það er búið að dæma í einu máli en það eru nokkur mál eftir. Af þessum sökum höfum við haldið að okkur höndum og erum að skoða þetta ofan í kjölinn og veitum ekki lengur lán á breytilegum vöxtum. Við veitum aðeins verðtryggð lán á föstum vöxtum eins og staðan er á meðan við erum að skoða málin betur,“ segir Harpa.

Nú sé verið að fara yfir hvaða áhrif dómurinn um óverðtryggðu lánin kunni að hafa á sambærileg lán hjá sjóðnum.

„Það er ómögulegt að segja, en það er ástæðan fyrir því að við höfum haldið að okkur höndum og viljum skoða málin betur. Okkar skilmálar eru ekki nákvæmlega eins og skilmálar Íslandsbanka en þetta er bara eitthvað sem við erum að fara yfir,“ segir hún.

Kunni að hafa neikvæð áhrif

Harpa telur að áhrif dómsins og vaxtamálin framundan kunni að vera neikvæð fyrir íslenska neytendur.

„Vaxtamálin hafa ofboðslega mikil áhrif á íslenska neytendur. Það er hætt við því að þetta hafi þau áhrif að vextir hækki. Það er hætt við því,“ segir Harpa.

Enn liggja nokkur mál fyrir Hæstarétti þar á meðal vegna skilmála verðtryggra fasteignalána. Harpa segir mikilvægt að niðurstaða liggi fyrir sem fyrst.

„Það væri gott fyrir kerfið að það kæmi flýtimeðferð fyrir þessi mál sem nú liggja fyrir Hæstarétti svo við gætum unnið eftir meiri vissu,“ segir hún að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×