Fótbolti

Fluttu fréttir af snjónum í Reykja­vík

Sindri Sverrisson skrifar
Leikmenn norður-írska landsliðsins sprelluðu í Reykjavík í gær en alvaran tekur við í dag.
Leikmenn norður-írska landsliðsins sprelluðu í Reykjavík í gær en alvaran tekur við í dag. Skjáskot/@northernireland

Norður-írsku landsliðskonurnar virðast síður en svo hafa látið það á sig fá að lenda í snjókomunni miklu í Reykjavík í gær. Þær hafa brugðið á leik á samfélagsmiðlum á meðan að þær bíða eftir leiknum mikilvæga við Ísland í dag, í umspili Þjóðadeildarinnar í fótbolta.

Ísland er í góðri stöðu í einvígi liðanna eftir 2-0 sigur ytra á föstudaginn. Seinni leikurinn átti að vera á Laugardalsvelli í gær en honum var frestað og hann færður, og ráðast úrslitin á Þróttarvelli klukkan 17 í dag.

Fyrst að þær gátu ekki spilað í gær ákváðu Norður-írsku stelpurnar að búa til örstuttan fréttaþátt um stöðuna á Íslandi, á laufléttum nótum, til að sýna stuðningsmönnum sínum heima fyrir. Útkomuna má sjá hér að neðan.

Leyla McFarland, sem lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Íslandi á föstudaginn, er ákveðinn senuþjófur í myndbandinu þar sem hún er í hlutverki fréttakonu á staðnum. Fámáll snjókall kemur líka við sögu.

Íslensku landsliðskonurnar voru einnig á ferli í snjókomunni í gær og létu sig ekki muna um að hjálpa bílstjórum í vanda eins og fjallað var um í gær.

Alvaran tekur við klukkan 17 í dag þegar seinni leikur þjóðanna hefst en vonir standa til þess að hægt verði að hreinsa Þróttarvöll í dag og gera gervigrasið þar klárt fyrir þennan mikilvæga landsleik.

Sigurliðið spilar í A-deild í undankeppni HM 2027 á næsta ári og mun eiga umtalsvert betri möguleika á að komast á sitt fyrsta heimsmeistaramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×