Fótbolti

Viktor Bjarki skoraði og lagði upp í fyrsta byrjunar­liðs­leiknum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ekkert virðist fá Viktor Bjarka stöðvað þessa dagana.
Ekkert virðist fá Viktor Bjarka stöðvað þessa dagana. Getty/Hendrik Deckes

Hinn 17 ára gamli Viktor Bjarki Daðason byrjaði sinn fyrsta leik fyrir FC Kaupmannahöfn þegar liðið sótti Hobro heim í dönsku bikarkeppninni í fótbolta. Hann gerði raunar gott betur en það, skoraði Viktor Bjarki eitt af fjórum mörkum FCK ásamt því að leggja upp annað.

Viktor Bjarki hefur komið sem stormsveipur inn í lið FCK en hann lagði upp mark í sínum fyrsta leik fyrir félagið og gerði svo gott betur þegar hann kom inn af bekknum gegn Borussia Dortmund í Meistaradeild Evrópu. Þar skoraði hann sitt fyrsta mark og varð um leið þriðji yngsti markaskorari í sögu Meistaradeildarinnar.

Á ekki það mörgum mínútum hafði Viktor Bjarki bæði skorað og lagt upp fyrir aðallið FCK. Það kom því ef til vill ekki það mikið á óvart þegar hann var valinn í byrjunarliðið gegn Hobro sem situr í fallsæti B-deildarinnar í Danmörku. Á sama tíma var markvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson á varamannabekknum.

Þó hinn tvítugi Youssoufa Moukoko - kollegi Viktors Bjarka í framlínunni - steli fyrirsögnunum í kvöld með þrennu á innan við klukkustund. Annað mark hans kom eftir undirbúning Viktors Bjarka.

Heimamenn minnkuðu muninn undir lok venjulegs leiktíma en í uppbótatíma skoraði Viktor Bjarki fjórða mark gestanna, lokatölur 1-4.

Í fjórum leikjum með aðalliði FCK hefur Viktor Bjarki nú skorað tvö mörk og gefið tvær stoðsendingar. Ágætis tölfræði það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×