Skoðun

Hver greiðir fyrir breytingarnar?

Svanfríður G. Bergvinsdóttir skrifar

Leikskólakerfi og fæðingartíðni hafa verið fyrirferðarmikil umræðuefni í samfélaginu undanfarin misseri. Nauðsynlegt er að ræða þá þróun sem hefur orðið enda liggja miklir hagsmunir þar að baki.

Eðlilega voru málefni barnafjölskyldna því á meðal þeirra stóru mála sem tekin voru fyrir á nýafstöðnu þingi ASÍ-UNG. Þingið lauk þeirri umfjöllun með ályktun. Það er skýrt af samtali við ungt fólk á vinnumarkaði að ákvarðanir opinberrar stjórnsýslu grafa verulega undan stöðu ungra foreldra og getu ungs fólks til þess að stofna fjölskyldu.

Gríðarlegt álag á foreldra

Álag á foreldra er gríðarlegt í nútíma samfélagi; tekjuskerðingar valda fjárhagskröggum í lengri tíma eftir barneignir, umönnunarbil að loknu fæðingarorlofi fram að leikskólavistun, viðvera í tómstundum barnanna, hækkandi leikskólagjöld, erfiðleikar við að komast inn á fasteignamarkað, himinháar upphæðir á leigumarkaði og svo má lengi telja. En þrátt fyrir þessar auknu kröfur til foreldra er enn ætlast til þess að þeir sem starfa á almennum vinnumarkaði sinni að lágmarki 8 tíma vinnu á dag, þróist í starfi, bæti við sig námi og þekkingu og haldi á einhvern hátt geðheilsunni.

Stórgallað fyrirkomulag bitnar á lágtekjufolki

Það liggur í augum uppi að starfsumhverfi sem hefur viðgengist á leikskólum er óviðunandi, en lausnin má ekki vera byggð á því að minnka möguleika ungra foreldra enn frekar. Það að krefja lægst launaða fólkið í samfélaginu, sem nauðsynlega þarf á öllum sínum vinnutíma að halda til að tryggja fjölskyldunni þak yfir höfuðið og mat á borðið, um hærri greiðslur til að halda sinni vistun er ekki sú þróun sem barnvænt samfélag á að taka. Gríðarlega margir vankantar eru á því fyrirkomulagi sem er boðað í rekstri leikskóla víða um land. Þeir bitna á þeim sem minnst mega við því.

Aðför að jafnrétti og fjölskyldulífi

Þróunin sem hefur orðið eykur ekki aðeins streitu og fjárhagsvandræði, heldur bítur hún í jafnréttisstöðu í þjóðfélaginu. Það er skýrt á öllum mælieiningum að konur taka frekar á sig umönnunarbyrðar og minnka jafnvel við sig vinnu, sem leiðir til lægri launa og lífeyrisgreiðslna seinna á lífsleiðinni. Karlar aftur á móti eru líklegri til að vinna mikla yfirvinnu til að bæta upp tekjutap heimilisins og missa því af tíma til að tengjast börnunum sínum og sinna þeim eins og þeir vilja. Þetta er staða sem ég hélt við myndum vera að fjarlægjast í nútímasamfélagi, en ekki stíga aftur inn í.

Ungt fólk í erfiðri stöðu

Staðan eins og hún er núna er einföld: Ungt fólk getur ekki átt börn og unnið fullan vinnudag án sterks baklands. Ungt fólk getur ekki eignast húsnæði fyrir fjölskylduna án hjálpar. Ungar konur eru að hverfa af vinnumarkaði. Ungir karlar hafa ekki tíma til að vera með börnunum sínum. Launalægstu einstaklingar samfélagsins sem þurfa mest á leikskólakerfinu að halda greiða meira fyrir þjónustuna en þau sem hafa meiri sveigjanleik í starfi og meira á milli handanna.

Er þetta raunverulega það samfélag sem við viljum?

Tillögur til úrbóta

Að mati ungs launafólks er þó unnt að gera fjölda breytinga ,bæði á vinnumarkaði og í opinberri stjórnsýslu, til að koma á sanngjarnara kerfi. Þá er átt við kerfi sem auka jöfnuð, bæði kynja og tekjuhópa, og skapa raunverulega möguleika fyrir ungt fólk til að stofna fjölskyldu. Breytingarnar sem þing ASÍ-UNG leggur til eru:

  • Vinnutímastytting á almennum markaði til að jafna leikinn við opinbera geirann og skapa raunhæft svigrúm fyrir foreldra.
  • Aukinn sveigjanleiki í leikskólakerfinu, þannig að foreldrar geti raðað leikskólatíma í samræmi við raunverulegan vinnutíma og fjölskylduaðstæður.
  • Jöfnun á leikskólagjöldum sem miðar að því að hærri gjöld bitni ekki á efnaminni foreldrum eða þeim sem eru rétt yfir lágmarkslaunum.
  • Endurskoðun á fjárhagslegum stuðningi við foreldra sem kjósa að vera lengur heima með börnum sínum, með greiðslum sem endurspegla raunverulegan kostnað við leikskólapláss og tryggja áframhaldandi lífeyrisréttindi heimavinnandi foreldra.
  • Breytingar á fæðingarorlofi sem miða að lengingu þess og að foreldrar fái að stjórna deilingu orlofs sín á milli, að tekjur í fæðingarorlofi séu ekki skertar, og að foreldrar fái að eyða fyrstu þremur mánuðum með barni saman í orlofi.
  • Að betri starfskjör séu ekki keypt með skerðingu á öðrum kjörum. Kaffi- og matartímar eru mikilvægur partur af vinnudeginum. Það er mikilvægt bæði með tilliti til bættra kjara og meiri starfsánægju að fólk fái tíma og tækifæri til þess að mynda tengsl og taka hlé frá vinnu sinni. Þau réttindi eru ekki bætt upp með styttri vinnuviku eða hærri launum.
  • Styðja þarf við foreldra í námi með sveigjanleika og fjárhagslegum úrræðum, svo barneignir verði raunhæfur kostur fyrir ungt fólk.

Ég hvet ráðamenn og aðra áhugasama til að skoða ályktanir þings ASÍ-UNG og kynna sér sjónarmið ungs launafólks á Íslandi. Stjórn samtakanna er alltaf reiðubúin til samtals og að leita lausna sem skila árangri.

Höfundur er formaður ASÍ-UNG.




Skoðun

Sjá meira


×