Handbolti

Al­freð hissa: Veit að Ís­lendingar geta mun betur

Sindri Sverrisson skrifar
Alfreð Gíslason kallar inn skilaboð í leiknum við Ísland á fimmtudaginn.
Alfreð Gíslason kallar inn skilaboð í leiknum við Ísland á fimmtudaginn. Getty/Daniel Karmann

Alfreð Gíslason segir það hafa komið sér á óvart hve mikill munur var á Þýskalandi og Íslandi í fyrri vináttulandsleik þjóðanna í handbolta í Nürnberg á fimmtudagskvöld.

Alfreð hefur stýrt þýska landsliðinu frá febrúar 2020 og er að undirbúa það fyrir EM í Skandinavíu í janúar.

Þjóðverjar unnu ellefu marka sigur á Íslendingum á fimmtudaginn, 42-31, eftir að hafa verið 20-14 yfir í hálfleik. Ísland fær tækifæri til hefnda á morgun og ljóst er að Alfreð býst við meira af íslenska liðinu, sem þó hefur nú misst Hauk Þrastarson út vegna meiðsla en Andri Már Rúnarsson var kallaður inn í hans stað.

Markvarslan stóri munurinn

„Við vildum auðvitað vinna en ég veit að Íslendingar geta mun betur en þetta. En vörnin okkar og sókn voru mjög góð að þessu sinni. Og stóri munurinn var markvarslan; Andi [Andreas Wolff] varði 19 eða 20 skot á meðan að hinu megin voru það bara fimm. Þannig fékkst þessi niðurstaða,“ sagði Alfreð á heimasíðu þýska handknattleikssambandsins.

Snorri Steinn Guðjónsson var með reynsluboltann Björgvin Pál Gústavsson utan hóps á fimmtudaginn og voru Viktor Gísli Hallgrímsson og Ágúst Elí Björgvinsson markmenn íslenska liðsins. Hvorugur náði sér á strik.

„Ísland er vanalega sterkt lið, sérstaklega útilínan sóknarlega, og þess vegna kemur á óvart hve sigurinn var stór,“ bætti Alfreð við.

Ísland með heimsklassamenn og úrslitin óvænt

Miro Schluroff, lærisveinn Guðjóns Vals Sigurðssonar og liðsfélagi Elliða Snæs Viðarssonar og Teits Arnar Einarssonar hjá Gummersbach, tók í sama streng og Alfreð.

„Við vitum hvaða gæði eru í íslenska hópnum. Þeir eru með heimsklassaleikmenn og maður býst ekki við svona úrslitum. Auðvitað gerir það að verkum að það er enn dásamlegra að við skyldum ná svona toppframmistöðu fyrir framan þessa frábæru stuðningsmenn,“ sagði Schluroff.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×