Fótbolti

Lygi­lega jafnt á toppnum eftir sigur AC Milan

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fagna því sem reyndist vera sigurmarkið.
Fagna því sem reyndist vera sigurmarkið. MB Media/Getty Images

Í lokaleik Serie A, efstu deild karla í fótbolta á Ítalíu, vann AC Milan 1-0 heimasigur á Roma. Sigurinn þýðir að aðeins munar einu stigi á 1. og 4. sæti deildarinnar þegar 10 umferðir eru búnar.

Það verður ekki annað sagt en að sigur kvöldsins hafi verið verðskuldaður. Leikmenn AC Milan fengu urmul marktækifæra en tókst þó aðeins að skora eitt mark. Að sama skapi fengu gestirnir fín færi og í raun ótrúlegt að mörkin hafi ekki verið fleiri. 

Miðvörðurinn Strahinja Pavlović skoraði það sem reyndist sigurmarkið á 39. mínútu þegar hann kláraði færi sitt af mikilli yfirvegun. Hinn stórskemmtilegi Rafael Leão með stoðsendinguna. 

Þegar tæpar tíu mínútur voru til leiksloka fengu Rómverjar kjörið tækifæri til að jafna metin. Vítaspyrna var dæmd eftir að boltinn fór í hönd Youssouf Fofana. Á punktinn steig Paulo Dybala en markvörðurinn Mike Maignan las Argentínumanninn eins og opna bók. Maignan varði spyrnu Dybala niðri í hægra horninu og sá til þess að AC var enn með forystuna. 

Lokatölur í Mílanó 1-0 og toppbaráttan í algleymingi. Ítalíumeistarar Napoli eru með 22 stig en þar á eftir koma Mílanó-liðin AC og Inter með 21 stig sem og Roma sem hefði farið á topp deildarinnar með sigri í kvöld. Bologna og Juventus koma svo þar á eftir með 18 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×