Erlent

Banna sam­tök íslamista og gerðu hús­leit hjá fleiri

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumaður kemur kassa með munum sem hald var lagt á í húsleit hjá samtökum íslamista fyrir í skotti bíls í Hamborg í dag.
Lögreglumaður kemur kassa með munum sem hald var lagt á í húsleit hjá samtökum íslamista fyrir í skotti bíls í Hamborg í dag. AP/Marcus Brandt/dpa

Þýsk yfirvöld bönnuðu starfsemi samtaka íslamista á þeim forsendum að hún stríddi gegn mannréttindum og lýðræðislegum gildum í dag. Þá var húsleit gerð á tveimur öðrum hópum múslima.

Samtökin Muslim Interaktiv voru talin ógna stjórnskipun Þýskalands með því að ýta undir gyðingahatur og mismunun kvenna og einstaklinga vegna kynhneigðar þeirra, að sögn AP-fréttastofunnar.

Hundruð lögreglumanna tóku þátt í aðgerðum gegn samtökunum í Hamborg. Þar lögðu þeir hald á reiðufé, gögn á stafrænu formi og handskrifuð minniblöð. Vefsíðum samtakanna var jafnframt lokað.

Vilja trúarleg lögmál ofar landslögum

Rök yfirvalda fyrir banninu voru að sérstök ógn stafaði af samtökunum vegna þess að þau kynntu íslam sem einu leiðina til að koma á röð og reglu í samfélaginu og að trúarleg lögmál ættu að ganga þýskum lögum ofar, sérstaklega hvað varðar stöðu kvenna.

Innanríkisráðuneytið sagði að Muslim Interaktvi væri sérstaklega á móti jafnrétti kynjanna og kynfrelsi.

„Þetta lýsir óþoli sem samræmist ekki lýðræðinu og mannréttindum,“ sagði ráðuneytið.

Samtökin eru sögð þekkt fyrir að reyna að ná til ungra múslima sem verða utangátta í þýsku samfélagi þar sem meirihluti íbúa er kristinn.

Þá gerði lögregla húsleit hjá tvennum samtökum múslima til viðbótar í höfuðborginni Berlín, annars vegar Íslömsku kynslóðinni og hins vegar Raunveruleika íslam.

Banna öfgamenn úr ýmsum áttum

Þýsk stjórnvöld hafa bannað starfsemi ýmissa öfgasamtaka á undanförnum árum, bæði hægriöfgamanna og íslamista. Leyniþjónustan fylgist einnig grannt með flokkum og hópum sem eru taldir ógn við lýðræði og stjórnskipan landsins.

Þannig hafa ákveðnar deildir öfgahægriflokksins Valkosts fyrir Þýskaland verið skilgreindar sem öfgasamtök sem leyniþjónustan hefur heimild til þess að fylgjast sérstaklega með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×