Viðskipti innlent

Út­lit fyrir „hrollkaldan vetur“ en eitt ljós í myrkinu

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Snorri Jakobsson greinandi.
Snorri Jakobsson greinandi. Vísir/Lýður Valberg

Samkeppnishæfni Íslands hefur versnað mjög hratt og er orðin mjög lök. Útlit er fyrir „hrollkaldan vetur“ vegna minnkandi útflutnings og lægri gjaldeyristekna að mati greinanda. Þó er eitt ljós í myrkrinu fyrir árið 2026, vextir ættu að lækka.

Þetta kom fram í kvöldfréttum Sýnar í gær. Þar var rætt við Snorra Jakobsson greinanda hjá Jakobsson Capital. Íslenska krónan hefur veikst talsvert gagnvart helstu gjaldmiðlum síðustu daga og hefur Snorri fylgst með þeirri þróun.

Færri flugsæti, ekki bara vegna Play

„Samkeppnishæfni Íslands hefur versnað mjög hratt og er orðin mjög lök. Raunlaun hafa hækkað mjög mikið hérna og raungengni krónunnar hefur styrkst mjög mikið,“ segir Snorri í kvöldfréttum Sýnar.

„Við getum tekið sem dæmi að það er samdráttur í framboði flugsæta til Íslands upp á tíu til fimmtán prósent og það er ekki bara íslensku flugfélögin og fall Play, það er líka eitthvað af erlendu flugfélögunum sem eru að fara að fljúga minna hingað til Íslands. Þetta þýðir náttúrulega minni útflutningur og minni gjaldeyristekjur. Þetta gætu verið 60 til 70 milljarða tap í gjaldeyristekjur.“

Krónan sé ákveðinn sveiflujafnari og það sé jákvætt í sjálfu sér að hún sé að veikjast. Snorri segist hinsvegar hræddur um að það verði ekki nóg, það sé til þess fallið að bæta stöðuna en ekki nægjanlega.

„Það er líka ýmislegt fleira eins og laxverð, það hefur lækkað um tíu prósent í íslenskum krónum. Þar eru að tapast svona kannski tíu milljarðar. Svo náttúrulega þessi bilun á Grundartanga, þar voru einhverjir tugir milljarðar. Svo að þú ert mjög fljótur að telja upp í hundrað milljarða af töpuðum gjaldeyristekjum á frekar stuttum tíma, þetta er að koma allt núna.“

Heldurðu að áhrifin af falli Play hafi verið vanmetin?

„Ég held að menn hafi ákveðið svolítið að horfa framhjá þessari sterku vísbendingu. Það eru búnar að vera vísbendingar um að staðan hafi verið að þyngjast í útflutningsgeiranum en ég held að menn hafi bara svolítið kosið að leiða það hjá sér.“

Tvennt í stöðunni

Þurfum við að bregðast við þessu?

„Það er útlit fyrir hrollkaldan vetur. Það er lítill sólargeisli í þessu. En það er tvennt í stöðunni. Annað hvort leyfum við bara krónunni að aðlagast og mörkuðum að jafna sig, krónan getur þá veikst og þá verður staðan betri og bara þessi týpíska sveifla sem er. En svo eru náttúrulega líka aðrar aðgerðir, sem er þá að hvetja til útflutnings frekar en að letja til útflutnings. Það væri eitt sem við gætum gert eða að veita einhverja ákveðna tímabundna innspýtingu inn í hagkerfið. Ég held að fjármálaráðherra og forsætisráðherra séu örugglega meira með puttann á púlsinum þar.“

Er ekki eitthvað smá ljós í myrkrinu, minnkar þetta ekki verðbólgu og lækkar vextina okkar?

„Þegar það slaknar á hagkerfinu, og ég held að það verði ekki tvö til tvö og hálft prósent hagvöxtur eins og var verið að spá, mér fannst aldrei vera hljóð og mynd við hagvaxtarspár og uppgjörin sem ég var að skoða. Vegna þess að það er búið að vera nokkuð ljóst að það væri bara lítill sem enginn hagvöxtur líklega árið 2026 en það þýðir náttúrulega líka að vextir munu þá koma niður.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×