Skoðun

Reykja­lundur á tíma­mótum

Sveinn Guðmundsson skrifar

Í ár fagnar Reykjalundur 80 ára afmæli en frá árinu 1945 hefur þessi einstaka stofnun verið einn af burðarásum íslenskrar endurhæfingarþjónustu.

Á þessum áttatíu árum hafa hátt í 50.000 einstaklingar, alls staðar af á landinu, notið þjónustu Reykjalundar. Markmiðið var skýrt frá fyrstu dögum: Að veita fólki með alvarleg veikindi eða líkamlega skerðingu möguleika á bata og auknum lífsgæðum. Í fyrstu snerist þjónusta Reykjalundar um stuðning við berklaveika en á síðari áratugum hefur áherslan verið á endurhæfingu og að hjálpa fólki að endurheimta styrk, sjálfstæði og lífsgleði á erfiðum tímum.

Sjálfbær heildarsýn á endurhæfingu

Í áratugi hefur Reykjalundur verið leiðandi á sínu sviði og engin íslensk heilbrigðisstofnun hefur viðlíka reynslu og þekkingu á endurhæfingu. Mikil þróun hefur átt sér stað og heldur hún stöðugt áfram, hvort sem um nýja tækni eða framfarir í heilbrigðisþjónustu er að ræða eða breyttar þarfir sjúklinga.

Undanfarna mánuði hefur SÍBS, sem rekur Reykjalund, unnið að metnaðarfullri framtíðarsýn og stefnumótun fyrir Reykjalundarsvæðið í samstarfi við KPMG. Á landsvæði SÍBS að Reykjalundi eru fjölmörg tækifæri til að þróa þjónustu sem styður við heildræna nálgun í endurhæfingu og heilbrigðisþjónustu.

Í þeirri vinnu hefur félagið bæði litið til eigin reynslu og þeirra miklu breytinga sem orðið hafa í samfélaginu. Markmiðið er að móta nýja og sjálfbæra heildarsýn þar sem endurhæfing, fræðsla, rannsóknir og þjónusta tengjast nánum böndum.

Endurhæfing er góð fjárfesting

Til þess að Reykjalundur geti áfram verið traustur hlekkur í heilbrigðisþjónustu er nauðsynlegt að samstaða skapist um áframhaldandi stuðning og fjárfestingu í uppbyggingu endurhæfingar.

SÍBS hefur í því sambandi óskað eftir viðræðum við stjórnvöld og aðra hagaðila um langtímauppbyggingu á sviði endurhæfingar, með áherslu á nýjan langtímasamning fyrir Reykjalund.

Endurhæfing er ein hagkvæmasta heilbrigðisþjónusta sem völ er á en með henni öðlast fólk tækifæri til að taka aftur fullan þátt í samfélaginu. Slík grunnþjónusta verður ekki byggð á tímabundnum lausnum heldur með ábyrgri og fyrirsjáanlegri uppbyggingu.

Stöndum vörð um framtíð Reykjalundar.

Höfundur er formaður SÍBS.




Skoðun

Skoðun

Takk!

Borghildur Fjóla Kristjánsdóttir skrifar

Sjá meira


×