Erlent

Þrír látnir eftir að rútu var ekið á bið­skýli

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Atvikið átti sér stað í miðborg Stokkhólms.
Atvikið átti sér stað í miðborg Stokkhólms. EpA

Þrír eru látnir og fjöldi slasaðir eftir að rútu var ekið á biðskýli í miðborg Stokkhólms. Bílstjóri rútunnar hefur verið handtekinn.

„Þetta er alvarlegt atvik,“ segir Sophie Gunnarsson, talsmaður samgöngufyrirtækisins SL, í samatali við Aftonbladet.

Rútunni var ekið á skýli við Vallhallvagen í Östermalm-hverfinu um klukkan hálf fjögur að staðartíma, hálf þrjú á íslenskum tíma. 

Í yfirlýsingu lögreglu segir að hvorki fjöldi látinna né aldur eða kyn þeirra verði gefið upp að svo stöddu. Heimildir Aftonbladet herma að þrír einstaklingar séu látnir. Í frétt þeirra segir einnig að málið sé rannsakað sem manndráp og að bílstjóri rútunnar hafi verið handtekinn. 

„Rútubílstjórinn hefur verið handtekinn. Hann verður yfirheyrður svo hægt sé að heyra hans lýsingu á atvikum,“ segir Nadya Norton, fjölmiðlafulltrúi lögreglunnar í Stokkhólmi.

Hins vegar séu vísbendingar að um að slys hafi verið að ræða en málið er samt sem áður rannsakað sem manndráp.

Fjöldi viðbragðsaðila er á vettvangi og hefur verið lokað fyrir umferð um svæðið.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×