Fótbolti

Króatar á HM en draumur Fær­eyja úti

Sindri Sverrisson skrifar
Króatar fagna vel í kvöld enda komnir inn á HM.
Króatar fagna vel í kvöld enda komnir inn á HM. Getty/Jure Makovec

Færeyingar náðu að komast yfir gegn Króötum í Rijeka í kvöld, í undankeppni HM í fótbolta, en urðu að lokum að sætta sig við 3-1 tap. Þar með er HM-draumur Færeyja úti en Króatar tryggðu sér sæti á mótinu næsta sumar.

Þetta verður fjórða heimsmeistaramót Króata í röð en þeir fengu brons fyrir þremur árum og silfur á HM 2018.

Færeyjar áttu enn veika von um að ná 2. sæti L-riðils með sigri í kvöld og þeir komust yfir með marki Géza Dávid Turi á 16. mínútu.

Manchester City stjarnan Josko Gvardiol jafnaði metin hins vegar skömmu síðar og í seinni hálfleik skoruðu Petar Musa og Nikola Vlasic.

Gunnar Vatnhamar, úr Íslandsmeistaraliði Víkings, stóð vaktina í miðri vörn Færeyja í kvöld. Ljóst er að Færeyingar enda í 3. sæti riðilsins, með 12 stig úr 8 leikjum, því þeir eru með mikið betri markatölu en Svartfellingar sem eru þremur stigum á eftir þeim og eiga einn leik eftir.

Tékkar enda í 2. sæti riðilsins og fara í umspilið sem Íslendingar vonast til að komast einnig í.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×