Fótbolti

Holland getur fagnað HM-sæti en Þýska­land þarf stig

Sindri Sverrisson skrifar
Virgil van Dijk er á leiðinni á HM en Robert Lewandowski þarf að fara í umspil.
Virgil van Dijk er á leiðinni á HM en Robert Lewandowski þarf að fara í umspil. Getty/Roy Lazet

Newcastle-maðurinn Nick Woltemade skoraði bæði mörk Þýskalands í kvöld, í 2-0 útisigri gegn Lúxemborg, en það dugði ekki til að tryggja Þjóðverjum HM-farseðil. Þeirra bíður úrslitaleikur við Slóvaka en Hollendingar geta farið að fagna.

Þýskaland og Slóvakía eru jöfn á toppi A-riðils fyrir uppgjör liðanna í Þýskalandi á mánudaginn en Þjóðverjar eru með betri markatölu og dugar jafntefli.

Nick Woltemade fagnar öðru marka sinna gegn Lúxemborg í kvöld.Getty/Harry Langer

Slóvakar halda í vonina eftir sigurmark Tomás Bobcek í uppbótartíma gegn Norður-Írlandi í kvöld, í 1-0 sigri, á sama tíma og Woltemade var að tryggja Þjóðverjum sinn sigur. Þó að Norður-Írar nái ekki öðru tveggja efstu sætanna í riðlinum þá fara þeir í HM-umspilið vegna árangurs á síðustu leiktíð í Þjóðadeildinni.

Í G-riðli gerðu Pólland og Holland 1-1 jafntefli þar sem Jakub Kaminski kom heimamönnum yfir í lok fyrri hálfleiks en Memphis Depay jafnaði snemma í seinni hálfleik.

Hollendingar eru efstir fyrir lokaumferðina, með 17 stig, þremur stigum fyrir ofan Pólverja en auk þess með þrettán mörkum betri markatölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×