Skoðun

Kæra for­eldri, verður barnið þitt af veru­legum árs- og ævi­tekjum ?

Jón Pétur Zimsen skrifar

Mikill munur er á námsárangri milli sveitarfélaga og landsvæða á Íslandi, en um hann er lítið rætt. Þrátt fyrir að fáar samræmdar upplýsingar séu til, benda þær sem til eru til þess að sumir foreldrar fá miklu meira fyrir skattana en aðrir.

Einnig ber að hafa í huga að menntamál eru oftast langútgjaldafrekasti kostnaðarliður sveitarfélaga.

Skv. UNESCO og Alþjóðabankanumskilar hvert skólaár 9% hærri árstekjum og mun hærri ævitekjum, hér er því líka um grjóthart efnahagsmál að ræða.

Foreldrar eiga að geta gert ráð fyrir því að börn í 10 ára skyldunámi fái sömu þjónustu hvar sem þau búa — en er það raunverulega svo?

Skoðum það sem sjaldan er rætt um, skv. OECD (20 stig í PISA jafngilda ~1 skólaári):

  1. Munur á milli svæða/sveitarfélaga er um 1,5 skólaári. Barn A fær 1,5 ári ,,meira“ nám en barn B.
  2. Á tímabilinu 2009–2018 hafa sum svæði/sveitarfélög ,,tapað“ u.þ.b. 1,5 skólaári.
  3. Á tímabilinu 2018–2022 ,,töpuðust“ 2 ár til viðbótar um land allt.

Þetta þýðir að mörg íslensk börn fá ekki þá 10 ára grunnmenntun sem um aldamótin var talin sjálfsögð, heldur mun ,,færri“ skólaár, lægri árs- og ævitekjur.

Það sem gerir þetta enn alvarlegra:

  • Foreldrum er haldið í myrkrinu, fá ekki upplýsingar um þessa stöðu og geta því ekki gagnrýnt stöðuna.
  • Jafnræði milli barna skortir tilfinnanlega.

Á einum stað færðu flotta þakíbúð þar sem vandað er til verka, gæða innréttingar og gólfefni en á öðrum stað er það lítil, köld, hriplek og mygluð kjallaraíbúð sem er í boði fyrir sama verð/skatta.

Því er þá stundum haldið fram að, þó að námsárangur sé í voða, séum við þó sterk í skapandi hugsun og félagsfærni eftir 10 ára skyldunám. Skoðum það:

1. Tæp 30% nemenda voru ekki með grunnfærni í skapandi hugsun 2022, langt undir meðaltali OECD.

2. Í skýrslu UNICEF (2020) segir að 15 ára unglingar á Íslandi höfðu minnstu félagsfærni OECD landa í Evrópu og áttu 30% þeirra erfitt með að eignast vini.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram tillögur sem fela í sér heildstæðar umbætur í menntamálum, margar þeirra hafa nú þegar sannað gildi sitt hérlendis.

Tillögur sem auka námsárangur, bæta líðan, þjálfa félagsfærni, lækka kostnað og hækka árs- og ævitekjur nemenda.

Ætla má að Sjálfstæðisflokkurinn, í langflestum sveitarfélögum, um land allt muni byggja sína menntastefnu á sambærilegum tillögum.

Skiptir menntakerfið þig máli?

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi skólastjóri




Skoðun

Sjá meira


×