Fótbolti

Spænsku stelpurnar mæta þeim ensku á Wembley en ekki þær ís­lensku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveindiís Jane Joónsdóttir og félagar í íslenska landsliðinu mæta Englandi í undankeppni HM á næsta ári en sá leikur verður ekki spilaður á Wembley.
Sveindiís Jane Joónsdóttir og félagar í íslenska landsliðinu mæta Englandi í undankeppni HM á næsta ári en sá leikur verður ekki spilaður á Wembley. Getty/Eddie Keogh/

Evrópumeistarar Englands munu mæta heimsmeisturum Spánar á Wembley í apríl í undankeppni HM kvenna 2027.

Meistaraliðin drógust saman í riðil og í sama riðli eru einnig íslensku stelpurnar og svo lið Úkraínu.

Spánn vann ensku ljónynjurnar í úrslitaleik HM 2023 en England hefndi fyrir tapið þegar liðið sigraði Spán í vítaspyrnukeppni í úrslitaleik EM 2025 í júlí og varði þar með Evrópumeistaratitilinn.

Liðin mætast aftur í A3-riðli þriðjudaginn 14. apríl og það er búið að ákveða að sá leikur fari fram á sjálfum Wembley-leikvanginum í London.

„Spánn er auðvitað eitt af bestu liðum heims og það er spennandi að mæta þeim aftur á Wembley. Við vitum frá úrslitaleiknum á EM hversu erfitt er að spila á móti þeim og það er mikil gagnkvæm virðing á milli liðanna,“ sagði Sarina Wiegman, þjálfari enska landsliðsins, á miðlum sambandsins.

Undankeppnin fyrir næsta heimsmeistaramót, sem haldið verður árið 2027 í Brasilíu, fylgir sama sniði og Þjóðadeildin og er skipt í þrjú styrkleikastig. Aðeins sigurvegarar riðlanna fjögurra í A-deild komast sjálfkrafa áfram í úrslitakeppnina en hin liðin þurfa að fara í umspil um þau átta sæti sem eftir eru.

„Þetta er krefjandi riðill en markmið okkar er að komast á HM, það er það sem við einbeitum okkur að héðan í frá. Við vonum að stuðningsmenn okkar geti hjálpað okkur að komast einu skrefi nær Brasilíu á Wembley í apríl,“ sagði Wiegman.

Miðað við þessa tilkynningu þá fá íslensku stelpurnar ekki að mæta Englandi á Wembley. Í frétt á miðlum enska sambandsins kemur nefnilega fram að upplýsingar um leikvanga fyrir hina heimaleiki Englands verða tilkynntar síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×