Handbolti

Sveinar Guð­jóns Vals aftur á sigurbraut

Sindri Sverrisson skrifar
Landsliðsmaðurinn Elliði Snær Viðarsson stóð fyrir sínu með Gummersbach í dag.
Landsliðsmaðurinn Elliði Snær Viðarsson stóð fyrir sínu með Gummersbach í dag. Getty/Harry Langer

Eftir jafntefli við Kiel og eins marks tap gegn Hamburg, auk taps í bikarnum gegn Lemgo, komust lærisveinar Guðjóns Vals Sigurðssonar á sigurbraut í kvöld með fínum útisigri gegn Wetzlar. Í Danmörku var Íslendingaslagur.

Gummersbach hefur verið á meðal efstu liða þýsku 1. deildarinnar í handbolta í vetur og er eftir sigurinn í dag með 17 stig í 5. sæti, aðeins fjórum stigum á eftir toppliði Magdeburg sem á þó leik til góða á önnur lið. Wetzlar er í 15. sæti með fimm stig, stigi frá fallsæti.

Elliði Snær Viðarsson skoraði þrjú mörk fyrir Gummersbach í dag og Teitur Örn Einarsson eitt. Þýski landsliðsmaðurinn Julian Köster var hins vegar mest áberandi í sóknarleiknum og skoraði fimm mörk og átti fjórar stoðsendingar.

Wetzlar var yfir, 21-20, þegar korter var eftir af leiknum en Gummersbach náði svo forystunni og uppskar að lokum nauman sigur, 31-29.

Arnór og Jóhannes fögnuðu gegn Ísaki og Guðmundi

Arnór Atlason, aðstoðarlandsliðsþjálfari, stýrði Holstebro til sjö marka sigurs gegn Ringsted, 33-26, í dönsku úrvalsdeildinni.

Holstebro var 18-16 yfir í hálfleik en þegar leið á seinni hálfleikinn náði liðið góðu forskoti.

Jóhannes Berg Andrason skoraði tvö marka Holstebro og átti eina stoðsendingu. Ísak Gústafsson skoraði þrjú mörk fyrir Ringsted, úr alls ellefu skotum ef marka má tophaandbold.dk, og Guðmundur Bragi Ástþórsson skoraði eitt. Þeir Ísak og Guðmundur áttu auk þess eina stoðsendingu hvor.

Holsebro er nú í 5. sæti með 14 stig, tíu stigum á eftir toppliði Aalborg en aðeins þremur á eftir GOG sem er í 2. sæti. Ringsted er næstneðst með sjö stig nú þegar tólf umferðum er lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×