Fótbolti

Danir og Svíar gætu mæst í HM-umspilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexander Isak og félagar í sænska landsliðinu skriðu inn í umspilið í gegnum Þjóðadeildina.
Alexander Isak og félagar í sænska landsliðinu skriðu inn í umspilið í gegnum Þjóðadeildina. Getty/Michael Campanella

Danir misstu HM-sætið frá sér á síðustu stundu í Skotlandi í gærkvöldi og þurfa því að fara í umspil um laus sæti á heimsmeistaramótinu næsta sumar.

Það er dregið á morgun og svo gæti farið að Danir mæti nágrannaríkinu Svíþjóð í þessu umspili.

Svíar áttu afleita undankeppni og enduðu í neðsta sæti síns riðils með engan sigur og tvö stig. Svíar hafa lengi búist við því að þeir þyrftu að treysta á aukatækifæri í umspilinu í mars en þeir komust þangað þökk sé sigri í sínum riðli í síðustu Þjóðadeild. Svíarnir unnu sinn riðil í C-deild Þjóðadeildarinnar í fyrra.

Í umspilinu taka þátt þau tólf lið sem lentu í öðru sæti í riðlunum sínum ásamt fjórum bestu sigurvegurunum úr riðlum í Þjóðadeildinni.

Svíþjóð, Rúmenía, Norður-Írland og Norður-Makedónía eru öll í veikasta styrkleikaflokknum vegna þess að þau komu inn í gegnum Þjóðadeildina. Þessar fjórar þjóðir þurfa því að lenda á móti sterkustu liðunum úr fyrsta styrkleikaflokki.

Þar verða Ítalir sem urðu að sætta sig við umspil eftir að hafa beðið lægri hlut fyrir Noregi í sínum riðli. Noregur lauk undankeppninni með 4-1 sigri í Mílanó á sunnudag og tryggði sér þar með beint sæti á mótinu.

Hinar tvær þjóðirnar eru Tyrkir og svo Úkraínumenn sem höfðu betur í hreinum úrslitaleik á móti okkur Íslendingum.

Sextán lönd berjast um fjögur laus sæti á HM í þessu umspili og liðunum er skipt í fjóra mismunandi „undanúrslitahópa“ með fjórum liðum í hverjum. Eitt lið úr hverjum undanúrslitahópi kemst svo áfram á HM.

Liðin í efsta og neðsta styrkleikaflokki dragast saman og verða í fjögurra liða móti með einu liði úr öðrum styrkleikaflokki og einu liði úr þeim þriðja. Sigurvegari úr leikjum liða úr 1. og 4. styrkleikaflokki og sigurvegari úr leikjum liða úr 2. og 3. styrkleikaflokki mætast síðan í hreinum úrslitaleik um laust sæti á HM í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó.

  • Hér eru styrkleikaflokkarnir í umspilsdrættinum á fimmtudag:
  • Styrkleikaflokkur 1: Danmörk, Ítalía, Tyrkland og Úkraína
  • Styrkleikaflokkur 2: Pólland, Wales, Tékkland og Slóvakía
  • Styrkleikaflokkur 3: Írland, Albanía, Bosnía og Hersegóvína og Kosóvó
  • Styrkleikaflokkur 4: Svíþjóð, Rúmenía, Norður-Makedónía og Norður-Írland



Fleiri fréttir

Sjá meira


×