Fótbolti

Sjáðu ræðu Niks eftir dramatískan kveðjuleik: „Þetta var full­kominn endir“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nik Chamberlain kvaddi Breiðablik eftir að hafa komið liðinu í átta liða úrslit Evrópubikars kvenna í fótbolta.
Nik Chamberlain kvaddi Breiðablik eftir að hafa komið liðinu í átta liða úrslit Evrópubikars kvenna í fótbolta. vísir/anton

Breiðablik tryggði sér sæti í átta liða úrslitum Evrópubikars kvenna í fótbolta með dramatískum sigri á Fortuna Hjørring á útivelli, 2-4. Sigurgleði Blikaliðsins í leikslok var ósvikin og fráfarandi þjálfari þess fór fögrum orðum um það í kveðjuræðu sinni.

Breiðablik tapaði fyrri leiknum gegn Fortuna Hjørring á Kópavogsvelli, 0-1, og lenti 2-0 undir í leiknum á Jótlandi í dag. En Íslands- og bikarmeistararnir gáfust ekki upp, skoruðu þrjú mörk og því þurfti að framlengja.

Í framlengingunni skoraði hin sautján ára Edith Kristín Kristjánsdóttir fjórða mark Blika og tryggði þeim sæti í næstu umferð. Breiðablik vann einvígið, 4-3 samanlagt.

Eins og við mátti búast fögnuðu leikmenn og starfslið Breiðabliks vel og innilega í leiknum eins og sást á myndböndum sem birtust á Instagram-síðu félagsins.

Nik Chamberlain stýrði Breiðabliki í síðasta sinn í kvöld en hann hefur verið ráðinn þjálfari Kristianstad í Svíþjóð. 

Nik hélt smá tölu úti á velli eftir leikinn í dag þar sem hann hrósaði Breiðabliksliðinu í hástert.

„Þetta var ótrúlegt. Að koma til baka eins og við gerðum eftir að hafa lent 2-0 undir. Eins og við töluðum um í gær og fyrradag hafa allir hlutverk. Það skiptir ekki máli hvort þú spilar tíu mínútur eða 120. Allir gerðu sitt í dag,“ sagði Nik.

„Við komum á helvíti erfiðan stað, 2-0 undir og unnum í fjandans framlengingu. Ég gat ekki beðið um meira þessi tvö ár sem ég hef verið hérna. Þetta var fullkominn endir.“

Í lokin sagðist Nik vonast til þess að Breiðablik myndi mæta Häcken í næstu umferð Evrópubikarsins. Og honum varð að ósk sinni því sænsku meistararnir slógu Inter út, 1-0 samanlagt.

Leikir Breiðabliks og Häcken fara fram í febrúar á næsta ári. Þar stýrir Ian Jeffs Blikaliðinu en hann var ráðinn þjálfari þess á dögunum.

Á þeim tveimur árum sem Nik stýrði Breiðabliki varð liðið tvívegis Íslandsmeistari og einu sinni bikarmeistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×