Sport

Ólympíufari á lista yfir tíu eftirlýstustu glæpa­menn FBI

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Wedding sést hér keppa á Ólympíuleikunum Salt Lake City í Bandaríkjunum árið 2002.
Ryan Wedding sést hér keppa á Ólympíuleikunum Salt Lake City í Bandaríkjunum árið 2002. Getty/Tony Marshall

Kanadamaðurinn Ryan Wedding hefur verið ákærður fyrir morð og fíkniefnasmygl og í boði er myndarlegt verðlaunafé í leit bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, að honum.

Wedding er fyrrverandi snjóbrettamaður en hann er á lista FBI yfir tíu eftirlýstustu glæpamenn stofnunarinnar. Hann hefur verið ákærður fyrir morð, fíkniefnasmygl og peningaþvætti, að því er FBI sagði frá.

Bandaríska alríkislögreglan hækkaði einnig á miðvikudag verðlaunafé sitt fyrir Wedding úr tíu milljónum dala í fimmtán milljónir dala. Það eru því tæpir tveir milljarðar í boði fyrir Wedding.

Pam Bondi, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, kallaði Wedding „einn afkastamesta og ofbeldisfyllsta skipuleggjanda fíkniefnasmygls í heiminum.“

Fíkniefnahringur Weddings er sagður bera ábyrgð á innflutningi á sextíu tonnum af kókaíni til Bandaríkjanna frá Mexíkó árlega, sem skilar um einum milljarði dala á ári, sagði Bondi við fréttamenn. Hann var settur á lista FBI yfir eftirlýstustu glæpamenn sem „einstaklega ofbeldisfullum glæpamanni sem talinn er bera ábyrgð á morðum á fjölmörgum einstaklingum erlendis.“

Auk fyrrverandi ólympíufarans eru ellefu grunaðir hingað til sakaðir um að hafa skipulagt morðið í janúar 2025 á vitni sem var skotið til bana á veitingastað í Kólumbíu. Yfirvöld sögðu að Wedding hefði sett verðlaunafé til höfuðs fórnarlambinu í von um að komast hjá lagalegum vandræðum.

„Þú verður ekki fíkniefnabarón og kemst undan lögum,“ sagði Patel. „Ryan Wedding er nútímaútgáfa af Pablo Escobar. Hann er nútímaútgáfa af „El Chapo“ Guzman. Þetta dómsmálaráðuneyti og þessi alríkislögregla munu vinna með kanadískum starfsbræðrum okkar og embættismönnum um allan heim til að koma honum fyrir rétt,“ sagði Kash Patel, yfirmaður bandarísku alríkislögreglunnar.

Patel hvatti einnig borgara til að gefa sig fram ef þeir hefðu einhverjar upplýsingar í málinu og sagði: „Nú er rétti tíminn til að tjá sig.“

Wedding tók þátt í Ólympíuleikunum 2002 í Salt Lake City og keppti samhliða í stórsvigi á snjóbretti fyrir Kanada. Hann lenti í 24. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×