Innlent

Ungt fólk glími við of­fitu eftir ein­angrun í kjöl­far Co­vid

Bjarki Sigurðsson skrifar
Guðrún Þuríður Höskuldsdóttir er yfirlæknir efnaskipta-og offituteymi Reykjalundar.
Guðrún Þuríður Höskuldsdóttir er yfirlæknir efnaskipta-og offituteymi Reykjalundar. Vísir/Bjarni

Yfirlæknir á Reykjalundi segir ungu fólki sem þarf á endurhæfingu að halda vegna offitu fara fjölgandi. Margir hafi einangrast í Covid-faraldrinum og aldrei náð sér eftir það.

Á Heilbrigðisþingi í dag var sérstök áhersla lögð á heilbrigðistengda endurhæfingu. Ráðherra vinnur að gerð hvítbókar um endurhæfingarþjónustu en fjöldi fólks var með erindi á þinginu í dag.

Komnir ungir með fylgisjúkdóma

Meðal þess sem var rætt var endurhæfing einstaklinga með offitu. Guðrún Þuríður Höskuldsdóttir, yfirlæknir á Reykjalundi, segist hafa tekið eftir fjölgun yngri skjólstæðinga sem þurfa á endurhæfingu að halda vegna offitu.

„Þeir eru líka að glíma við alvarlegri offitu og oft komnir með fylgisjúkdóma mjög ungir. Okkur finnst þessi hópur kannski þurfa annars konar úrræði heldur en þetta hefðbundna sem við höfum verið að veita á Reykjalundi,“ segir Guðrún. 

Reyna að aðlaga þjónustuna

Þó það sé slæmt að heyra af fjölgun ungs fólks með offitu, sé jákvætt að hærra hlutfall leiti sér aðstoðar. Það þurfi að mæta þessum hópi fyrr.

„Það er það sem við höfum verið að vinna með á Reykjalundi, að aðlaga starfsemina að þörfinni í samfélaginu. Við finnum það klárlega að það er þörf fyrir meiri þjónustu, til lengri tíma og fyrir stærri hópa,“ segir Guðrún. 

Einangrast í Covid

Þá þurfi sumt ungt fólk ekki á endurhæfingu að halda, heldur hreinni hæfingu.

„Maður gerir ráð fyrir því að endurhæfing snúist um að þjálfa einstaklinginn aftur í þá færni sem hann hefur haft. Ef þú ert með einstakling sem hefur aldrei haft þessa færni þá getur þú ekki endurhæft hann þangað til baka. Þá erum við að tala um einstaklinga sem þurfa að þróa með sér nýja færni. Það er önnur meðferð,“ segir Guðrún. 

Gæti það tengst því að þetta sé einhver sem hefur glímt við offitu frá unga aldri?

„Þarna erum við til dæmis að sjá hóp sem okkur finnst hafa einangrast svolítið í Covid. Einstaklingar sem voru að klára grunnskóla þegar Covid var að byrja og fóru ekki í framhaldsskóla eða vinnu. Eru mikið einangraðir heima. Þeir þurfa úrræði sem tekur lengri tíma til að komast aftur af stað út í samfélagið,“ segir Guðrún. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×