Innlent

Gerir kröfu um að fjár­magn fylgi barni í vímu­efna­vanda

Lovísa Arnardóttir skrifar
Halla Hrund Logadóttir kallar eftir því að fjármagn fylgi barni í meðferð á meðan úrræðin eru ekki til staðar á Íslandi. 
Halla Hrund Logadóttir kallar eftir því að fjármagn fylgi barni í meðferð á meðan úrræðin eru ekki til staðar á Íslandi.  Vísir/Vilhelm

Halla Hrund Logadóttir þingkona Framsóknarflokksins vill að fjármagn fylgi barni þegar kemur að fíknimeðferðum. Hún segir að á meðan ekki sé hægt að tryggja aðgengi og öryggi barna í meðferðarúrræðum á Íslandi eigi foreldrar og forráðamenn að geta leitað annað og fengið fjármagn með.

„Við erum ekki að tryggja öryggi þessara barna í dag, á Íslandi, þau eru ekki að komast í meðferð. Þau eru ekki örugg hér og það besta sem við getum gert er að koma þeim í góða meðferð sem tryggir öryggi þeirra,“ segir Halla Hrund og að það sé það sem fjölskyldur og foreldrar séu að kalla eftir.

Hún vísar til umfjöllunar í kvöldfréttum Sýnar í gær þar sem móðir sagði veru sonar síns á Stuðlum hafa gert illa verra. Sonur hennar fyrirfór sér fyrr á árinu og einnig í nýlega umfjöllun um þrjár mæður sem fóru með syni sína í meðferð í Suður-Afríku vegna úrræðaleysis og lítils árangurs í meðferð á Íslandi.

Halla Hrund vakti máls á stöðu barna á þinginu í dag í tilefni af alþjóðlegum degi barnsins. Hún sagði í flutningsræðu sinni að þó svo að flest börn hafi það gott á Íslandi séu hér ýmis mein sem þurfi að uppræta. Sem dæmi vímuefnanotkun barna og úrræðaleysið sem mætir foreldrum þegar þau takast á við vandamál.

„Við verðum að láta fjármagn fylgja barni óháð því hvar meðferð fer fram. Við myndum ekki mismuna í öðrum veikindum. Börn með önnur veikindi fengju fjármagn til að fara í meðferð til annars lands,“ sagði hún í ræðu sinni og spurði ráðherra hvort hann væri ekki sammála.

Halla Hrund nefndi einnig í ræðu sinni stöðu drengja í skólakerfinu, ofbeldi gegn börnum, samfélagsmiðlanotkun barna og stöðu fatlaðra barna.

Geti ekki tryggt öryggi annars staðar

Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, svaraði Höllu og sagði að ekki væri hægt að taka þátt í því að greiða fyrir meðferð barna erlendis þar sem íslensk stjórnvöld geti ekki tryggt öryggi barna og að farið sé að Barnasáttmálanum annars staðar.

„Ég treysti mér ekki til að tryggja það en ég skal gera allt sem ég get til að tryggja rétt þeirra hér innan lands og sjá til þess að þessi úrræði virki; Stuðlar, Gunnarsholt og allt sem við erum að gera,“ sagði Guðmundur Ingi. Það væri verið að vinna að því að koma opna Gunnarsholt og um leið og það verði opnað verði Stuðlar teknir í gegn. Þá sagði Guðmundur Ingi að allt yrði gert til að stöðva það að fíkniefni kæmust inn á Stuðla.

„Það er ekki ásættanlegt. Við eigum að sjá til þess að börn sem eru í okkar umsjá komist ekki í fíkniefni. Um það erum við öll sammála. Ég skal alveg segja það að ef ég gæti breytt fortíðinni á örfáum mánuðum í nútíðinni þá væri ég löngu búinn að því en ég ætla enn og aftur að halda áfram að gera mitt besta,“ sagði Guðmundur Ingi í ræðu sinni.

Fjöldi þingmanna tók þátt í umræðunni og sagði Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar, til dæmis að hann skildi ekki hvers vegna ekki væri litið á vímuefnavanda barna sem heilbrigðismál frekar en hegðunarvanda.

Eigi að nauðungarvista börn

„Þetta er heilbrigðisvandi og við eigum að taka á honum með heilbrigðisstarfsfólki. Við eigum að nauðungarvista börn í meðferð og í samstarfi við fagaðila eins og SÁÁ. Það er mín skoðun,“ sagði Jón á þingi í dag.

Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir þingkona Miðflokksins sagðist orðin þreytt á orðum án aðgerða og sagði stöðuna hafa versnað frá því að sérstakt ráðuneyti barna var sett á stofn. Farsældarlöggjöfinni hafi ekki fylgt nægilegt fjármagn og allt kapp verið sett á dyggðaskreytingar, hópa, ráð og myndatökur.

Sjúkratryggingar eigi að borga

Bryndís Haraldsdóttir þingkona Sjálfstæðisflokksins tók undir orð Höllu og benti á að hún hefði margoft lagt til að fjármagn myndi fylgja barni.

„Virðulegur forseti, staðan er sú í dag í þessum málaflokki. Við getum ekki veitt brýna, mikilvæga læknisfræðilega meðferð við vímuefnavanda margra barna og þá ber okkur að sjá til þess að þessi börn fái þá þjónustu þó að hún sé utan landsteinanna og Sjúkratryggingar Íslands eiga að greiða þann kostnað,“ sagði Bryndís.

Halla Hrund segist vona að ráðherra muni endurskoða ákvörðun sína um fjármagnið á meðan staðan er þannig að ekki er hægt að tryggja örugga meðferð fyrir börn á Íslandi.

„Ég ber mikla virðingu fyrir vinnu ráðherra og veit að þetta er ekki einfalt, að byggja upp ný úrræði og styrkja við þau sem fyrir eru. En þangað til að veruleikinn hér heima er orðinn betri verðum við að minnsta kosti að leyfa fjármagni að fylgja barni því það er barninu fyrir bestu.“


Tengdar fréttir

Greinilega um misskilning að ræða sem ber að leiðrétta

Forstjóri gæða- og eftirlitsstofnunar velferðamála (GEV) segir það alkosta rangt hjá Barna- og fjölskyldustofu að mál sem kom upp í júní sé þess eðlis að ekki beri að tilkynna það. Það hljóti að vera misskilningur hjá stofnuninni. 

Ósáttur með viðbrögð Barna- og fjöl­skyldu­stofu

Eftirlit með vistunarúrræðum fyrir börn er nánast í skötulíki að sögn framkvæmdastjóra Geðhjálpar. Svör Barna- og fjölskyldustofu vegna rannsóknar lögreglu á ofbeldismáli starfsmanns gegn barni á Stuðlum veki áhyggjur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×