Handbolti

„Hefðum klár­lega viljað fá að­eins meira út úr þessari viku“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arnar pússar saman varnarleik ungs liðs Íslands.
Arnar pússar saman varnarleik ungs liðs Íslands. vísir / ívar

„Við erum að koma okkur inn í búbbluna sem er gott að vera í. Þar fáum við aðeins betri tíma og meira næði til að einbeita sér að því sem skiptir máli,“ segir Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna í handbolta. Liðið hélt utan í dag, spilar æfingaleik í Færeyjum á morgun og hefur leik á HM í Þýskalandi eftir helgi.

Meiðsli og veikindi hafa strítt liðinu. Andrea Jacobsen er meidd og spilar líklega ekki fyrr en á síðari hluta mótsins. Elísa Elíasdóttir fer ekki með til Færeyja vegna axlarmeiðsla og þá hafa Hafdís Renötudóttir og Thea Imani Sturludóttir verið veikar.

„Þetta er búin að vera lala vika með það að gera. Andrea er að keppa við tímann og við tökum stöðuna á henni dag frá degi. Elísa er líka búin að vera í veseni. Svo erum við ofan á það búin að vera í veikindum með lykilleikmenn. Hafdís er búin að vera veik og Thea er vonandi að koma sér upp úr því,“ segir Arnar.

Það sé engin draumastaða þegar svo skammt er í mót.

„Við hefðum klárlega viljað fá aðeins meira út úr þessari viku. En hún er samt sem áður búin að vera góð. Þeir leikmenn sem hafa verið hérna hafa verið á góðum æfingum og gert vel. Þetta er einn af þessum hlutum sem maður getur ekkert verið að hanga yfir eða gert of mikið í,“ segir Arnar.

Ísland tapaði fyrir Færeyjum og Portúgal í undankeppni EM í síðasta mánuði. Liðið er töluvert breytt frá síðasta stórmóti og reynsluboltar hættir. Það þarf því að endurstilla liðið og segist Arnar einblína hvað helst á vörnina.

„Við leggjum mesta vinnu í varnarleikinn. Það eru breytingar þar frá síðasta móti sem kalla á það að við gefum okkur tíma í það. Við erum með unga leikmenn í lykilhlutverkum sem hafa stigið mjög vel upp og komið vel inn í þetta. Það var stígandi á milli leikjanna í október. Við þurfum að halda þeim stíganda áfram og hjálpa til eins og hægt er,“ segir Arnar.

Viðtalið má sjá í spilaranum.

Klippa: Fagnar því að komast í búbbluna



Fleiri fréttir

Sjá meira


×