Skoðun

Hvað kennir hug­rekki okkur?

Sigurður Árni Reynisson skrifar

Hugrekki er sjaldnast það sem glansmyndirnar sýna. Það er ekki maður á fjallstindi með vindinn í hárinu, né heldur það sem fólk setur á samfélagsmiðla. Hugrekki er eitthvað miklu dýpra, eitthvað sem gerist innra með okkur, oft án þess að nokkur sjái það.

Í sinni upprunalegustu mynd er hugrekki hvorki hljóð né hreyfing, heldur kyrr sannfæring. Það er augnablik þar sem hjartað ákveður að standa í ljósi sannleikans, þótt þögnin hallist að manni með öllum sínum þægindum. Hugrekki býr í þeim sem þora að standa aðeins til hliðar og í þeim sem halda sannfæringu sinni á lofti þegar allir aðrir falla í takt. Það er í manneskjunni sem stígur fram þegar það er þægilegra að sitja kyrr og í sálinni sem þorir að vera hún sjálf þó allt í kring kalli á að hún verði eitthvað annað. Í því felst dýpsta birtingarmynd hugrekkis, að upphefja ekki sjálfan sig, heldur sannleikann innra með sér. Í sinni einföldustu mynd er hugrekki að mæta, að rísa upp, að taka eitt smátt en heiðarlegt skref. Og í slíku skrefi býr öll fegurð hugrekkisins.

Ég hef alla tíð hrifist af fólki sem þorir að vera það sjálft, jafnvel þó það sé álitið skrýtið. Allt sem er öðruvísi hefur alltaf dregið mig að sér eins og segull. Sennilega vegna þess að ég dáist að slíku hugrekki, og kannski vegna þess að ég er þannig sjálfur. Ég hef alltaf beint athyglinni að fólki sem neitar að missa litina sína til að falla inn í grátt mynstur annarra, fólki sem stígur inn í rými þar sem enginn bjóst við því og heldur fast í eigin sannfæringu þótt aðrir hafi gefist upp.

Saga okkar Íslendinga geymir dæmi um slíkt hugrekki. Þegar forsetinn synjaði að skrifa undir Icesave stóð hann einn á móti afli sem virtist óhreyfanlegt, ríkisstjórn, sérfræðingum og alþjóðlegum þrýstiöflum. Ákvörðunin vakti bæði reiði og ótta, en hún kveikti líka von. Hún minnti okkur á að stundum þarf einn maður að standa í stríði sem enginn vill heyja, svo þjóðin fái að segja sitt. Og hvort sem fólk var honum sammála eða ekki, kenndi þetta okkur að hugrekki er ekki að velja auðveldustu leiðina heldur þá sem hjartað bendir á, þó svo að þú þurfir að synda á móti straumnum.

En hugrekki birtist ekki aðeins á hátindi valdsins. Það birtist líka í sínum hljóðlátustu myndum í lífi manneskju sem hefur misst, fallið, vaknað aftur og þarf að mæta heiminum með skjálfandi höndum.

Ég man eins og það hefði gerst í gær þegar ég þurfti að sækja um vinnu í fyrsta sinn eftir dóminn. Tvö ár voru liðin frá niðurstöðunni í Landsrétti og ég hugsaði aftur og aftur, hver er að fara að ráða dæmdan mann? Ég var í sálfræðinámi og ákvað að sækja um á geðdeild, ekki aðeins til að skilja sjúkdómana sem ég var að læra um, heldur af því að ég hélt að þar væru meiri líkur á að fá vinnu. En þegar ég gekk inn í anddyri sjúkrahússins helltist yfir mig ótti sem ég hafði sjaldan fundið fyrir. Ég fann líkamann fyllast ógeðstilfinningu, skömm, sjálfshatri og viðkvæmni sem brann á húðinni. „Ég er ekki nógu góður, hver vill fá mann eins og mig í vinnu?“ Ég gekk út úr sjúkrahúsinu þrisvar sinnum til að endurstilla mig, anda, kyngja tárunum sem brunnu á hvarminum og til að sannfæra mig um að snúa aftur.

Ég vissi ekki þá að þetta væri hugrekki.

Ég fór í viðtalið skjálfandi, brothættur og tilbúinn við það að fá „nei“ en það kom ekki og ég fékk vinnuna. Fyrstu dagarnir voru eins og að ganga á eggjaskurn, en ég fann smá gleði að hafa þó þorað. Eftir vikuþjálfun fékk ég smáskilaboð í símann, fundur með deildarstjóra og starfsmannastjóra og ég mætti hafa trúnaðarmann með. Ég vissi hvað var að gerast. Fortíðin mín var mætt.

Ég mætti einn. Ég ákvað að bera skömmina sjálfur í síðasta sinn. Andspænis þeim tveimur, deildarstjóranum og starfsmannastjóranum, sat ég niðurlútur, hlustandi á ásakanir um að ég hefði ekki sagt satt. Ég hefði alveg eins getað staðið upp og gengið burt. Hjartað lamdi. Hendurnar sveittar. Röddin villtist inni í mér.

Svo kom þögn.

Og í þeirri þögn spurði starfsmannastjórinn „Hvað gerðist þarna, Siggi?“ Það var eins og einhver opnaði hurð innra með mér. Eins og rödd sem hvíslaði „láttu vaða“. Og ég gerði það. Ég sagði allt. Allt sem ég hafði reynt að halda í skugga. Frásögnin byrjaði hikandi en röddin styrktist eftir því sem sannleikurinn flæddi út. Þegar ég lauk frásögn minni var ég tæmdur, skjálfandi og algerlega búinn á því.

Það voru einu erfiðustu klukkustundir lífs míns að bíða eftir niðurstöðunni. Svo hringdi síminn. Þögn í heilan andardrátt. Og loks orð sem breyttu öllu,

„ég hef ákveðið að trúa þér, Siggi og ég ætla að treysta þér.“

Ég fraus. Svo brast eitthvað innra með mér. Tárin komu án þess að ég gæti stoppað þau. Ég stóð einn heima hjá mér með símann í hendinni, fann hnén gefa sig og sökk niður þar sem ég stóð. Og í því augnabliki í kyrrðinni eftir þessi ár kviknaði veikur, en dýrmætur neisti, kannski, bara kannski, ætti ég aftur möguleika á að verða aftur heill maður. Það tók mig langan tíma að skilja það, en í dag veit ég að þarna fann ég mitt eigið hugrekki og fyrir það er ég þakklátur á hverjum degi.

Hugrekki kennir okkur að leiðtogi þarf ekki að vera sá sem hefur fallegustu orðin eða fullkomnasta pappírinn. Stundum er hugrekki fólgið í því að spyrja óþægilegra spurninga, hrista upp í hefðum og stíga inn í rými þar sem allir vita að erfiðar áskoranir bíða. Það kennir okkur að jafnvel þeir sem virðast ólíklegastir geta borið stóra ábyrgð ef þeir hafa hjartað í málinu.

Hugrekki kennir okkur að enginn þarf að vera fullkominn til að skipta máli. Það eina sem þarf er hjarta sem trúir að einhverju megi breyta, augun sem sjá það sem aðrir hafa hætt að sjá og rödd sem þorir að nefna það sem helst væri þagað í hel.

Og ef sagan hefur kennt okkur eitthvað, þá er það þetta, stundum er það einmitt sá sem stendur aðeins til hliðar, sá sem allir efast um, sem endar á að færa heila þjóð inn á nýja braut.

Höfundur er kennari.




Skoðun

Sjá meira


×