Innlent

Stór­hættu­leg eitur­lyf flæða til landsins í sögu­legu magni

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Alda Hrönn Jóhannsdóttir yfirlögfræðingur hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum segir að aldrei hafi eins mikið magn fíkniefna verið haldlagt á Keflavíkurflugvelli. Stórhættulegt nýtt efni, Nitzene, hafi haldið innreið sína
Alda Hrönn Jóhannsdóttir yfirlögfræðingur hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum segir að aldrei hafi eins mikið magn fíkniefna verið haldlagt á Keflavíkurflugvelli. Stórhættulegt nýtt efni, Nitzene, hafi haldið innreið sína Vísir

Aldrei hefur verið lagt hald á eins mikið magn örvandi fíkniefna á Keflavíkurflugvelli og í ár. Þá hafa stórfelld eiturlyfjamál á flugvellinum aldrei verið fleiri. Neysla á nýju afar hættulegu efni virðist vera að færast í aukanna. Yfirlögfræðingur Lögreglunnar á Suðurnesjum segir þetta benda til gríðarlegs framboðs og eftirspurnar. 

Sprenging hefur orðið á innflutningi margra fíkniefna. Til að byrja með má nefna innflutning á nýgeðvirkum efnum þar á meðal Nitazene en Tollgæslan og Lögreglan á Suðurnesjum fundu efnin fyrst í litlum mæli á Keflavíkurflugvelli á síðasta ári, en á þessu ári hefur verið lagt hald á ríflega þrjátíu sinnum meira magn en þá. 

Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli og Lögreglan á Suðurnesjum hafa lagt hald á þrjátíu sinnum meira magn af nýgeðvirkum efnum þar á meðan Nitazene, en á síðasta ári. (Heimild, Lögreglan á Suðurnesjum, magn er í stykkjatali)Vísir

Ríkislögreglustjóri varar sérstaklega við þessu efni í nýrri skýrslu. Það sé afar hættulegt og tengist tugum til hundruð dauðsfalla í Evrópu. 

Kókaín, amfetamín. metamfetamín og kannabis í sögulegum hæðum

Þá hefur verið lagt hald á meira en tvöfalt meira magn af kókaíni á Keflavíkurflugvelli það sem af er ári en en nokkru sinni áður eða næstum áttatíu og eitt kíló. 

Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli og Lögreglan á Suðurnesjum hafa lagt hald á næstum 81 kíló af kókaíni á þessu ári. (Heimild, Lögreglan á Suðurnesjum, tölur eru í grömmum).Vísir

Haldlagt amfetamín er ríflega tvöfalt meira nú en þegar það var mest árið 2019 eða um 18 kíló, það sama á við um metamfetamín. 

Tollgæslan og Lögreglan á Suðurnesjum hafa lagt hald á tvöfalt meira magn af Amfetamíni á þessu ári en þegar það var mest árið 2019. (Heimild, Lögreglustjórinn á Suðurnesjum, tölur eru í grömmum).Vísir

Loks hefur verið lagt hald á fimmtungi meira af kannabis í ár en á síðasta ári þegar met var slegið eða alls um 264 kíló.

Tollgæslan og Lögreglan á Suðurnesjum hafa lagt hald á 264 kíló af kannabis á Keflavíkurflugvelli það sem af er ári. Það er tíu sinnum meira en árið 2019.Vísir

 Hins vegar er minna um haldlagningu á ávana-og fíknilyfjum eins og ketamíni og oxy á þessu ári en í fyrra eða um átta kíló. 

Það er virðist vera minna um ávana- og fíknilyf í Keflavík eins og Ketamín og Oxy.Vísir

Stórfelld brot aldrei fleiri

Þá kemur ekki á óvart að stórfelld fíkniefnalagabrot hafa aldrei verið fleiri en í ár á Keflavíkurflugvelli eða næstum níutíu. 

Alda Hrönn Jóhannsdóttir yfirlögfræðingur hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum segir að þrátt fyrir að lagt hafi verið hald á allt þetta magn virðist verð á fíkniefnunum á markaðnum ekki vera að lækka sem bendi til þess að það sé nóg framboð. Þá hljóti eftirspurnin líka að vera mikil. 

Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli og Lögreglan á Suðurlandi lögðu hald á þessa ferðatösku fulla af kókaíni sem burðardýr reyndi að smygla til landsins á þessu ári. Þetta er aðeins lítill hluti þess magns sem embættin hafa lagt hald á, á þessu ári. Vísir

„Við erum að slá met í haldlagningu á þessum alvarlegu og hættulegu fíkniefnum eins og kókaíni, amfetamíni, metamfetamíni og þessum nýju geðvirku efnum eins og Nitzene sem eru í raun eins konar eftirlíkingar af öðrum efnum. Þetta sýnir augljóslega mikla eftirspurn eftir þessum efnum hér á landi. Frárennslisrannsóknir gefa það líka til kynna. Skýringarnar geta verið fjölmargar eins og mannfjölgun, fleiri ferðamenn, fleiri brotahópar og frábær árangur tollgæslu og lögreglu á Keflavíkurflugvelli,“ segir Alda. 

Hún segir nýja efnið eða Nitzene stórhættulegt.

„Bara brot úr einni töflu getur banað fólki. Ég vil bara ítreka það að fólk neyti ekki þessara efna.“

Skipulögð brotastarfsemi íslenskra og erlendra hópa

Alda segir að brotin séu langflest þaulskipulögð af íslenskum og erlendum glæpahópum. 

„Langflest málin tengjast skipulagðri brotastarfsemi,“ segir Alda.

Hún segir að mun meira sé um en áður að fólk reyni að flytja inn efnin í vökvaformi. 

„Innflutningur í vökvaformi hefur aukist gríðarlega. Það segir okkur að þá eru efnin útbúin hér á landi, þ.e. neysluskammtarnir og framleiðslan fer fram hér,“ segir Alda. 

Neydd í verkefnið

Hún segir að oftast sé um að ræða svokölluð burðardýr sem séu að reyna að koma efnunum til landsins en þau finnist líka í flugsendingum. Fólk hafi þetta ýmist að atvinnu eða sé neytt til starfans.

„Þessi svokölluðu burðadýr eru í yfirgnæfandi meirihluta erlendir ríkisborgarar. Stundum er fólkið frá löndum utan Evrópusambandsins. Þetta eru allt frá því að vera atvinnuburðardýr og í niður í að þetta er fólk í viðkvæmri stöðu sem hefur verið neytt í verkefnið,“ segir Alda.

Jón Halldór Sigurðsson lögreglufulltrúi hjá Lögreglunni á Suðurnesjum man ekki eftir öðru eins flóði fíkniefna. Vísir

Jón Halldór Sigurðsson lögreglufulltrúi hjá Lögreglunni á Suðurnesjum hefur sinnt málaflokknum í áravís og man ekki eftir öðru eins flóði fíkniefna til landsins. Hann segir algengt að fólk reyni að smygla efnum í ferðatöskum en í raun séu aðferðinar óteljandi.

„Þegar fólk reynir að nota ferðatöskur er innihald þeirra venjulega fjarlægt og fíkniefnin svo falin í fölsum eða byrði töskunnar. Það er misjafnt hversu faglega þetta er gert. En svo er alls konar notað eins og styttur, blómapottar og fleira til að fela fíkniefnin í. Fólk getur verið afar hugmyndaríkt í innflutningi á eiturlyfjum til landsins,“ segir hann. 


Tengdar fréttir

Þúsund sinnum sterkara en morfín og erfitt að þekkja

Nýmyndaður ópíóíði sem óttast er að kominn sé í dreifingu hér á landi er þúsund sinnum sterkari en morfín að sögn réttarefnafræðings. Skimað hefur verið eftir efninu undanfarin ár en efnið er mjög svipað í útliti og aðrir ópíóðar og er talið stórhættulegt. 

Táningsstúlkur dæmdar fyrir að flytja inn efni sem var ekki bannað

Nítján ára og sautján ára táningsstúlkur hafa verið dæmdar í tólf mánaða fangelsi fyrir tilraun til að flytja inn Oxycontin. Þær voru gripnar með tuttugu þúsund töflur, sem merktar voru sem Oxycontin, á Keflavíkurflugvelli en töflurnar innihéldu allt annað efni. Það efni er hættulegt en var ekki að finna á lista yfir efni sem bönnuð eru hér á landi. Því voru þær sýknaðar af innflutningnum en sakfelldar fyrir tilraun til innflutnings. Efninu hefur nú verið bætt á bannlista.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×