Skoðun

Er endur­hæfing happ­drætti?

Svana Helen Björnsdóttir skrifar

Reykjalundur er lykilstofnun í endurhæfingu landsmanna og hefur verið rekin án hagnaðarsjónarmiða allt frá stofnun árið 1945 þegar SÍBS keypti land af Reykjabændum í Mosfellssveit til að reka endurhæfingu fyrir berklasjúklinga.

Nú er á Reykjalundi rekin almenn endurhæfingarþjónusta sem hjálpað hefur 50 þúsund manns út í lífið eftir sjúkdóma eða slys og í flestum fjölskyldum á Íslandi er einhver sem hefur notið góðs af þjónustunni þar.

Flestir Íslendingar þekkja líka Happdrætti SÍBS sem hefur verið bakhjarl Reykjalundar síðan happdrættið hóf starfsemi árið 1950. Í dag er happdrættið eina uppspretta fjármagns til byggingarframkvæmda á Reykjalundi því ríkið greiðir enga leigu fyrir afnot af húsnæðinu, öfugt við húsnæði hjúkrunarheimila og heilsugæslustöðva svo eitthvað sé nefnt.

Viðhald á úreltum húsakosti

Húsnæði Reykjalundar er að miklu leyti úr sér gengið og svarar illa nútímakröfum til heilbrigðisþjónustu enda flest 50–80 ára gamalt. SÍBS hefur varið um 50 milljónum króna árlega síðustu ár í lágmarksviðhald húsnæðisins. Þetta er fórnarkostnaður þess að burðast með úr sér gengnar byggingar og betra hefði verið að geta notað þetta fé í nýbyggingu.

Í heildarúttekt verkfræðistofu árið 2023 voru allra brýnustu endurbætur metnar á tvo milljarða króna. Ljóst er að það myndi engan veginn borga sig að leggja upp í slíka óvissuferð með húsnæði sem svarar ekki kalli tímans.

Beðið eftir stefnu stjórnvalda

Að byggja nýtt húsnæði yfir Reykjalund er eina raunhæfa leiðin til að tryggja starfsemina til framtíðar. Með þetta fyrir augum hefur SÍBS verið að leita fjármagns til að mynda sjóð sem gæti staðið undir eiginfjárframlagi á móti framkvæmdalánum.

Skilyrði fyrir að slík fjármögnun gangi upp er leigusamningur við ríkið um nýja húsnæðið líkt og tíðkast með húsnæði hjúkrunarheimila og heilsugæslustöðva. Happdrættið er að leggja fé í slíkan sjóð en meginhluti fjármögnunarinnar mun þó að líkindum koma gegnum sölu byggingarréttar á landi í eigu SÍBS.

Á fundi með heilbrigðisráðherra í febrúar 2025 var stjórnendum SÍBS og Reykjalundar tjáð að endurhæfingarþjónusta yrði tekin til heildarendurskoðunar. Ráðherra mælti þá með að SÍBS og Reykjalundur tækju engar stórar ákvarðanir í húsnæðismálum fyrr en stefna ríkisins í málaflokknum lægi fyrir

Nú bíðum við eftir hvítbók og í kjölfar hennar stefnumótunarvinnu sem vonandi klárast á næsta ári. Lítið er hægt að aðhafast í húsnæðismálum fyrr en við vitum hvaða endurhæfingu ríkið ætlar að fjármagna og hvaða ekki.

Samfélagsleg grunnstoð

Reykjalundur er mikilvægur hlekkur í heilbrigðiskerfinu sem nær ekki að lifa af nema ríkið axli ábyrgð og tryggi að endurhæfing sé fjármögnuð á sama hátt og önnur heilbrigðisþjónusta.

Reykjalundur hefur bætt lífsgæði, færni og sjálfsbjargargetu þúsunda einstaklinga. Við rekum ómissandi grunnþjónustu í íslensku heilbrigðiskerfi og erum leiðandi stofnun á sviði endurhæfingar.

Nú þarf ríkið að stíga inn með skýrum skuldbindingum svo að bygging nýs húsnæðis verði að veruleika. Rekstur endurhæfingar á ekki að vera happdrætti heldur fagleg þjónusta sem byggir á skýrri langtímastefnu stjórnvalda.

Höfundur er starfandi forstjóri og stjórnarformaður Reykjalundar.




Skoðun

Sjá meira


×