Viðskipti innlent

Opnar úti­bú Forréttabarsins á kunnug­legum stað

Árni Sæberg skrifar
Húsnæðið á horni Frakkastígs og Hverfisgötu var merkt Forréttabarnum í gær.
Húsnæðið á horni Frakkastígs og Hverfisgötu var merkt Forréttabarnum í gær. Vísir/Vilhelm

Róbert Ólafsson, eigandi hins sívinsæla Forréttabars á Nýlendugötu í Reykjavík, stefnir á að opna nýtt útibú staðarins á horni Hverfisgötu og Frakkastígs. Þar þekkir hann ágætlega til, þar sem hann rak þar barinn og veitingastaðinn Brewdog um árabil. Hann segir að staðurinn á Nýlendugötu verði áfram „móðurskipið“.

Þetta staðfestir Róbert í samtali við Vísi en íbúar í miðborginni tóku eftir því í gær að merkjum Forréttabarsins var komið fyrir í gluggum húsnæðisins á Frakkastíg.

Hann segir að reynt verði að fanga sem mest af sömu stemningunni og ríkir á Nýlendugötunni en þó með þeirri breytingu að opið verði í hádeginu á nýja staðnum, þriðjudaga til laugardaga. Hugsanlega verði matseðillinn aðeins minni í sniðum en í móðurskipinu og hádegistilboð og tilboð á barnum yfir daginn verði á nýja staðnum.

Í nýja húsnæðinu sé salur sem hægt verði að leigja undir einkasamkvæmi, líkt og hægt var á Brewdog.

Hefur engar áhyggjur af leyfamálum

Stefnt sé að opnun staðarins strax í janúar og hann hafi engar áhyggjur af leyfamálum, sem plagað hafa veitingamenn undanfarin misseri. Staðurinn verði enda rekinn af sama félagi og rak Brewdog og því séu öll leyfi þegar til staðar. 

Róbert rak Brewdog í félagi við tvo aðra um árabil en tilkynnt var í október að staðnum yrði lokað, að lokinni hálfgerðri brunaútsölu á bjórbirgðum barsins.

Með í maganum en hóflega bjartsýnn

Róbert segist munu reka Forréttabarinn á Frakkastíg einn, líkt og á Nýlendugötu. Hann gengst við því að vissulega sé ákveðin bjartsýni í því að opna veitingastað í núverandi markaðsaðstæðum.

„Maður er náttúrulega smá með í maganum en ég hef fengið góð viðbrögð og fólk er spennt.“ 

Hann vonist til þess að fá austurbæinga á staðinn sem hafi ekki hætt sér vestur í bæ og segir mikla uppbyggingu í gangi í nágrenni nýja staðarins, þar séu að rísa tvö hótel og Hverfisgatan öll sé orðin hin glæsilegasta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×