Erlent

Hóta að koma fram við Belga eins og Ung­verja

Samúel Karl Ólason skrifar
Bart De Wever, forsætisráðherra Belgíu, er undir miklum þrýstingi frá kollegum sínum í Evrópu.
Bart De Wever, forsætisráðherra Belgíu, er undir miklum þrýstingi frá kollegum sínum í Evrópu. EPA/OLIVIER MATTHYS

Ráðamenn í Evrópu hafa varað kollega sína í Belgíu við því að standi þeir áfram í vegi þess að hald verði lagt á frysta sjóði Rússa, sem eru að miklu leyti í belgískum banka, verði mögulega komið fram við þá eins og Ungverja í framtíðinni. Til stendur að reyna að samþykkja aðgerðirnar á leiðtogafundi eftir viku en Bandaríkjamenn hafa einnig reynst Þrándur í götu Evrópumanna.

Flestir leiðtogar Evrópu vilja nota áðurnefnda sjóði til að fjármagna 210 milljarða evra aðstoðarpakka handa Úkraínu.

Sjá einnig: Biðla til Belga en tvær tillögur á borðinu

Um er að ræða 140 milljarða evra í belgískum banka en þar að auki eru um 25 milljarðar í öðrum bönkum innan ESB.

Bart De Wever, forsætisráðherra Belgíu, hefur staðið í vegi haldlagningarinnar og hefur lagt fram ýmsar kröfur til ESB vegna hennar. Belgar óttast það að sitja á endanum uppi með það að þurfa að endurgreiða Rússum peningana og óttast að haldlagningin gæti haft slæm áhrif á belgíska banka.

Belgar eru einnig taldir hagnast töluvert á vöxtunum af þessum sjóðum en hluti þeirra vaxta hefur verið notaður til að fjármagna vopnakaup handa Úkraínumönnum.

Meðal þess sem De Wever er sagður hafa farið fram á er að ESB skuldbindi sig til að borga brúsann með Belgum, komi til þess.

Í frétt Politico segir að vonast sé til þess að hægt verði að komast að samkomulagi um kröfur Belga á þeirri viku sem er til leiðtogafundarins.

Gætu snúið baki við Belgum

Samhliða viðræðum eru evrópskir erindrekar sagðir hafa komið óánægju sinni skírlega á fram við Belga. Meðal annars hefur De Wever verið sagt að haldi hann áfram að standa í vegi aðgerða með sífellt auknum kröfum og skilyrðum, gæti á endanum verið komið fram við Belga eins og Ungverja.

Ráðamenn í Evrópu hunsa að miklu leyti Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, vegna bakslags sem orðið hefur í Ungverjalandi þegar kemur að lýðræði og vegna andstöðu hans við refsiaðgerðir gegn Rússum.

Eins og segir í grein Politcio fela skilaboðin í sér að rödd Belga við Evrópuborðið færi inn um eitt eyra annarra erindreka og út um hitt. Þá yrðu óskir þeirra og áhyggjur settar neðarlega á forgangslista Evrópusambandsins þegar kemur að langtímafjárlögum þess fyrir 2028-2034.

Ekki yrði leitað eftir tillögum frá Belgum og símtölum þeirra yrði ekki svarað.

Heimildarmenn Politico segja ástandið nokkuð alvarlegt og það kalli á aðgerðir. Útlit sé fyrir að 71,7 milljarða evra halli verði á fjárlögum Úkraínumanna á næsta ári. Fjármagn sé því gífurlega mikilvægt og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur ekki viljað veita Úkraínumönnum aðstoð.

Annar möguleiki sem hefur verið til skoðunar er að gefa út skuldabréf og fjármagna þannig aðstoð handa Úkraínumönnum. Slíkt þyrfti þó atkvæði allra aðildarríkja og Ungverjar hafa þegar sagt að þeir myndu ekki samþykkja það.

Þriðji kosturinn er að einstök ríki Evrópu opni eigin sparibauka og haldi Úkraínumönnum þannig á floti. Sá kostur þykir ekki vinsæll.

Vilja einnig komast í peningana

Erindrekar og embættismenn Trumps hafa á undanförnum vikum ítrekað gefið til kynna að þeir vilji koma höndum yfir frysta sjóði Rússa í Evrópu, eða i það minnsta stóran hluta þeirra. Þeir hafa einnig gert Evrópumönnum ljóst að þeir vilji veita Rússum aftur aðgang að alþjóðahagkerfinu.

Lokað var á þann aðgang að miklu leyti eftir innrásina 2022.

Í grein Wall Street Journal segir að bandarískir erindrekar hafi fært Evrópumönnum þó nokkur skjöl að undanförnu sem snúi að enduruppbyggingu í Úkraínu.

Skjöl þess fela í sér áætlanir um að áðurnefndir sjóðir verði að miklu leyti notaðir í ýmis verkefni í Úkraínu og þar á meðal gagnaver sem knúið verður með kjarnorkuveri sem rússneskir hermenn halda.

Tillögurnar munu ekki vera þær sömu og voru nýverið opinberaðar í friðaráætlun Bandaríkjamanna. Þar kom fram að hundrað milljarða dala af peningum Rússa, auk hundrað milljarða frá ríkjum Evrópu, ætti að nota til uppbyggingar í Úkraínu og að Bandaríkjamenn myndu hirða helminginn af hagnaðinum.

Þessar nýju tillögur eru einnig sagðar snúast um að bandarísk fyrirtæki fjárfesti í námu- og olíuvinnslu í Rússlandi og komi að því að opna aftur á flæði jarðeldsneyta frá Rússlandi til Evrópu og annarra heimshluta.

Nokkrir af evrópskum heimildarmönnum WSJ sögðust ekki vissir um hvort taka ætti þessum tillögum alvarlega. Einn setti þær í samhengi við Jaltaráðstefnuna, þar sem sigurvegarar seinni heimsstyrjaldarinnar skiptu með sér Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×