Innlent

Refsing milduð yfir burðardýri

Agnar Már Másson skrifar
Farþegar á Keflavíkurflugvelli. Mynd úr safni.
Farþegar á Keflavíkurflugvelli. Mynd úr safni.

Landsréttur mildaði í dag dóm yfir átján ára manni sem hafði smyglað inn þrettán kílóum af kókaíni til Ísland. Tekið var tillit til ungs aldurs mannsins og að ekkert benti til þess að hann hefði komið að skipulagningu og fjármögnun innflutningsins.

Maðurinn, sem nefnist Maxence Yannick Bertrand, hafði í sumar verið dæmdur af héraðsdómi Reykjaness í sex og hálfs árs fangelsisvist. Hann var sakfelldur fyrir að flytja inn þrettán kíló af kókaíni ætluð til söludreifingar. Kókaínið var falið í tösku sem hann hafði meðferðis í flugi FI555 frá ótilgreindum stað til Keflavíkur, samkvæmt dómnum. Flug FI555 er á vegum Icelandair og flogið er á milli Brussel í Belgíu og Íslands.

Bertrand játaði sök en áfrýjaði þó dómnum þar sem honum þótti refsingin og þung en ákæruvaldið vildi þyngja refsinguna.

Landsréttur leit til þess að brotaviljinn hefði verið vissulega einbeittur. Aftur á móti horfði það til mildunar að hann væri 18 ára þegar brotið var framið. Þá játaði hann brotið á rannsóknarstigi og fyrir dómi. 

Loks tók Landsréttur tillit til þess að ekki lá annað fyrir en að hlutverk Bertrand hefði einvörðungu verið í því fólgið að koma efnunum hingað til lands og fá þau öðrum í hendur. Ekkert benti til þess að hann hefði komið að skipulagningu og fjármögnun innflutningsins. Með hliðsjón af þessu var refsingin ákveðin fangelsi í fimm ár, frekar en sex og hálft.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×